Fótbolti

Draumagengi Guð­rúnar heldur á­fram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðrún Arnardóttir hefur verið í lykilhlutverki hjá Rosengård síðan hún kom til liðsins fyrir þremur árum.
Guðrún Arnardóttir hefur verið í lykilhlutverki hjá Rosengård síðan hún kom til liðsins fyrir þremur árum. vísir/diego

Guðrún Arnardóttir stóð vaktina að venju í vörn Rosengård sem vann öruggan 3-0 sigur á Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Rosengård átti afleitt tímabil í fyrra en hefur komið sterkt til leiks í sumar. Liðið er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir fimm umferðir og markatöluna 20-2. Hammarby, meistarar síðasta tímabils, eru með jafn mörg stig og Rosengård.

Guðrún hefur leikið alla fimm deildarleiki Rosengård á tímabilinu frá upphafi til enda og skorað eitt mark.

Ekki gekk jafn vel hjá Ásdísi Karenu Halldórsdóttur og stöllum hennar í Lilleström sem töpuðu 1-0 fyrir Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni. Sigurmark heimakvenna kom mínútu fyrir leikslok.

Ásdís Karen lék allan leikinn fyrir Lilleström sem er í 3. sæti deildarinnar með tólf stig eftir sjö leiki.

Sædís Rún Heiðarsdóttir er frá vegna meiðsla hjá Vålerenga sem er með fullt hús stiga á toppi deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×