Ortega kom inn á sem varamaður fyrir Ederson í seinni hálfleik í leiknum gegn Tottenham í gær. Þegar fjórar mínútur voru eftir slapp Son Heung-min, fyrirliði Spurs, í gegn en Ortega varði frá honum. Í uppbótartíma skoraði Erling Haaland svo annað mark City úr vítaspyrnu og tryggði liðinu 0-2 sigur.
Með sigrinum komst City á topp ensku úrvalsdeildarinnar og þarf bara að vinna West Ham United í lokaumferðinni á sunnudaginn til að verða meistari fjórða árið í röð.
Carragher segir að City geti þakkað Ortega fyrir að vera með pálmann í höndunum fyrir lokaumferðina.
„Tottenham gerði City erfiðara fyrir en við höfum séð nokkuð lið gera í langan tíma, hvað varðar færin sem þeir fengu,“ sagði Carragher eftir leikinn í gær.
„Ortega, einn síns liðs, vann ensku úrvalsdeildina fyrir þá. Augljóslega hefur margt gerst á tímabilinu en ef þú horfir á þennan leik og ef hann hefði ekki átt þessar vörslur í stöðunni 1-0 hefði Arsenal unnið titilinn. Það er svona stutt á milli.“
Carragher segir að stuðningsmenn Arsenal muni gráta færið þar sem Ortega varði frá Son í langan tíma.
„Þetta færi er augnablik sem stuðningsmenn Arsenal munu muna eftir næstu 5-10 árin. Jafnvel þótt þeir vinni titilinn á næstu fimm árum - þeir eiga möguleika á því þar sem þeir eru með frábært lið og frábæran stjóra - mun þetta færi ásækja þá,“ sagði Carragher og líkti færinu sem Son fékk við mark Vincents Kompany fyrir City gegn Leicester City 2019. Með því komst City í bílstjórasætið í baráttunni við Liverpool um Englandsmeistaratitilinn.
Hinn þýski Ortega kom til City frá Armina Bielefeld fyrir tveimur árum. Á þessu tímabili hefur hann leikið fimmtán leiki fyrir City.