Slot, sem hefur stýrt liði Feyenoord í heimalandinu undanfarin ár tekur með sér aðstoðarþjálfarann Sipke Hulshoff og frammistöðuþjálfarann Ruben Peeters frá Feyenoord til Liverpool.
Samkomulag Slot og Liverpool er í höfn. Slot hefur sjálfur skrifað undir samning við félagið og nú er bara beðið eftir formlegri tilkynningu frá Liverpool.
„Ég get staðfest að ég verð knattspyrnustjóri Liverpool frá og með næsta tímabili,“ sagði Slot á blaðamannafundi Feyenoord í dag fyrir lokaleik liðsins gegn Excelsior í hollensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn kemur.
Slot er 45 ára gamall Hollendingur sem hefur gert góða hluti með Feyenoord frá því að hann tók við árið 2021. Liðið varð hollenskur meistari í fyrra og vann bikarkeppnina í ár.