Íslensk stjórnvöld hafa nú skilað landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda til Evrópusambandsins en Ísland á í samstarfi við það um losunarmarkmið gagnvart Parísarsamkomulaginu. Samkvæmt tölum Umhverfisstofnunar var samfélagslosun, sú sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda, verið undir skuldbindingum fyrstu tvö ár Parísarsamkomulagsins.
Samfélagslosun nam 2,8 milljónum tonna koltvísýringsígilda árið 2022 og stóð í stað á milli ára. Hún var 1,3 prósentum undir árlegri losunarúthlutun Íslands. Stærstu þættirnir í samfélagslosun eru vegasamgöngur (33 prósent), landbúnaður (22 prósent) og fiskiskip (sautján prósent).
Losun vegna vegasamgangna jókst um átta prósent á milli ára vegna aukinna eldsneytiskaupa á sama tíma og losun frá landbúnaði dróst saman um þrjú prósent vegna fækkunar sauðfjár og frá fiskipum um fimmtán prósent vegna minni eldsneytiskaupa á Íslandi. Fiskimjölsverksmiðjur juku losun sína um 463 prósent á milli ára vegna skerðingar á raforku.
Umhverfisstofnun að samfélagslosunin hafi verið undir árlegri losunarúthlutun Íslands samkvæmt skuldbindingum landsins og nettólosun vegna landnotkunar hafi dregist saman miðað við tímabilið 2005 til 2009. Því stefni í að Íslandi standist skuldbindingar sínar um samdrátt í samfélagslosun og nettólosunar vegna landnotkunar 2021 og 2022.

Enn þriðjungi minni losun en fyrir heimsfaraldur
Útblástur frá alþjóðaflugi og siglingum jókst verulega á milli 2021 og 2022 þegar efnahagsumsvif tóku að nálgast fyrra horf eftir heimsfaraldur kórónuveirunnar sem hófst árið 2020. Losun frá alþjóðasiglingum jókst um 124 prósent en frá alþjóðaflugi um 77 prósent.
Alþjóðasamgöngur ollu losun á rúmlega milljón tonnum af koltvísýringsígildum árið 2022 en hún nam um einni og hálfri milljón tonnum árið 2018.
Kísilmálmverksmiðjur voru ástæða þess að losun sem heyrir undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir (ETS) jókst um tæplega tvö prósent á tímabilinu. Losun kísilmálmverksmiðjanna jókst um níu prósent á milli áranna 2021 og 2022.
Þó að losun vegna landnotkunar hafi aukist um eitt prósent á milli ára nam binding skóglendis meira en hálfri milljón tonna koltvísýringsíglda. Bindingin er sögð hafa sautjánfaldast frá árinu 1990. Stærsta einstaka uppspretta losunar vegna landnotkunar er framræst votlendi.