Fótbolti

Val­geir Lunddal skoraði í tapi Häcken

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valgeir Lunddal Friðriksson skoraði gegn Mjällby.
Valgeir Lunddal Friðriksson skoraði gegn Mjällby. getty/Oliver Kaelke

Mark Valgeirs Lunddals Friðrikssonar dugði skammt fyrir Häcken þegar liðið tapaði fyrir Mjällby, 2-1, í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Valgeir minnkaði muninn í 2-1 á 48. mínútu, tveimur mínútum eftir að Mjällby skoraði annað mark sitt.

Valgeir var tekinn af velli þegar 25 mínútur voru eftir af leiknum sem Häcken tapaði, 2-1. Þetta var þriðja tap Häcken í síðustu fjórum leikjum en liðið er í 7. sæti deildarinnar.

Eftir gott gengi í upphafi tímabils var Júlíusi Magnússyni og félögum í norska liðinu Fredrikstad skellt niður á jörðina þegar þeir sóttu Tromsø heim. Fredrikstad þurfti að sætta sig við tap, 3-0.

Júlíus lék að venju allan leikinn á miðjunni hjá Fredrikstad sem er í 3. sæti norsku úrvalsdeildarinnar með 21 stig, þremur stigum á eftir Bodø/Glimt og Brann.

Hilmir Rafn Mikaelsson var í byrjunarliði Kristiansund sem laut í lægra haldi fyrir Brann á grátlegan hátt, 2-1. Sigurmarkið kom þegar níu mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. 

Hilmir var tekinn af velli þegar fjórar mínútur voru eftir. Brynjólfur Darri Willumsson lék ekki með Kristiansund vegna meiðsla. Liðið er í 13. sæti með tíu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×