Íslenski boltinn

„Ég veit ekki al­veg hvernig það gerðist en ég var glöð að sjá boltann syngja í netinu“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jordyn Rhodes í leik gegn Val fyrr á tímabilinu. 
Jordyn Rhodes í leik gegn Val fyrr á tímabilinu. 

Jordyn Rhodes átti sendingu sem leiddi til jöfnunarmarks Tindastóls í 1-1 jafntefli gegn Víkingi í 8. umferð Bestu deildar kvenna í dag. 

„Ég er ánægð, þetta er auðvitað betra en að missa öll stigin frá okkur. Það hefur verið stígandi í síðustu leikjum okkar sem er gaman að sjá. Eftir tvo tapleiki í röð gefur jafntefli okkur ágætis grunn til að byggja á í næstu leikjum,“ sagði Jordyn í viðtali við Arnar Skúla Atlason eftir leik. 

Jordyn átti fyrirgjöfina sem leiddi til jöfnunarmarks Tindastóls á 84. mínútu. Sendingin rataði ekki á samherja en Emma Steinsen skallaði boltann óvart í eigið net. 

„Ég man ekki alveg eftir öllu, komst bara í 1 á 1 stöðu og fór framhjá varnarmanni, gaf góða fyrirgjöf og einhvern veginn endaði hann í netinu. Ég veit ekki alveg hvernig það gerðist en ég var glöð að sjá boltann syngja í netinu.“

Þetta var kærkomið stig fyrir Tindastól sem hafði tapað þremur leikjum í röð. 

„Við byrjuðum ágætlega en höfum verið í dýfu undanfarið. Við erum að vinna okkur upp úr því og vonandi getum við haldið áfram að bæta okkur og sótt fleiri stig.“

Jordyn gekk til liðs við Tindastól fyrir tímabilið eftir að hafa leikið með háskólanum í Kentucky undanfarin ár. Hún segir vistaskiptin hafa gengið vel. 

„Nokkuð vel, ég á nokkra íslenska vini sem ég kynntist í Bandaríkjunum. Þau búa reyndar í Reykjavík sem er frekar langt í burtu. Það tala líka allir ensku hérna sem er mikill kostur. Þetta hefur bara verið mjög gaman, ég hef eignast fullt af nýjum vinum og fengið að upplifa fegurð landsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×