Erlent

Ungur maður tekinn af lífi fyrir að hlusta á K-pop í Norður-Kóreu

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Kim Jong Un er einræðisherra Norður-Kóreu.
Kim Jong Un er einræðisherra Norður-Kóreu. AP/Gavriil Grigorov

Tuttugu og tveggja ára gamall maður var tekinn af lífi í Norður Kóreu á opinberum vettvangi, fyrir að hafa hlustað á 70 lög frá Suður-Kóreu, horft á þrjár myndir þaðan og að hafa dreift þeim. Þetta var árið 2022.

Breski miðillinn Independent greindi frá þessu í gær. Þar segir að þetta hafi verið meðal þess sem kom fram í mannréttindaskýrslu um Norður-Kóreu sem ráðuneyti í Suður-Kóreu birti á fimmtudaginn. Í skýrslunni birtist meðal annars vitnisburður 649 Norður-Kóreumanna sem hafa flúið landið.

Vilja sporna gegn „illkynja“ vestrænum áhrifum

Skýrslan varpar ljósi á harðar aðgerðir sem Norður-Kóresk yfirvöld hafa ráðist í til að sporna gegn vestrænum áhrifum. Bann við K-poppi er mikilvægur liður í þeirri vegferð, en ný lög sem samþykkt voru þar í landi árið 2020 hertu enn frekar bannið við þessari afþreyingu frá Suður-Kóreu, en áhrif tónlistarinnar á fólk eru sögð „illkynja.“

Hér er Suður-Kóreska K-pop hljómsveitin RIIZE. Yfirvöldum í Norður-Kóreu hugnast illa tískan og hugmyndirnar sem hljómsveitir í þessum stíl boða.AP/Ahn Young-joon

Svokallað K-pop er ákveðin tegund popptónlistar, eða jafnvel afþreyingarefni í víðum skilningi frá Suður-Kóreu sem hefur náð miklum vinsældum um heim allan. 

Unga fólkið hrifið af Suður-Kóreu

Í skýrslunni er haft eftir rúmlega tvítugri konu sem flúði Norður-Kóreu, að ungt fólk í Norðrinu sé mjög hrifið af menningu Suðursins. „Unga fólkið reynir að fylgjast með, og herma eftir menningunni í Suður-Kóreu. Þau elska allt sem kemur þaðan,“ segir hún.

Þegar unga fólkið horfir á dramaþætti frá Suður-Kóreu, hugsi þau með sér, „af hverju þarf ég að lifa eins og við lifum hér?“ 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×