Upp­gjörið: Valur - Þróttur 1-0 | Dramatískur sigur Íslandsmeistaranna

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Valur vann hádramatískan sigur.
Valur vann hádramatískan sigur. Vísir/Anton Brink

Valur sigraði Þrótt með sigurmarki á 90. mínútu að Hlíðarenda í 11. umferð Bestu deild kvenna . Lokatölur 1-0 í jöfnum leik sem Þróttarar geta verið sár svekktir með að fara tómhentir heim.

Þessi lið mættust einnig síðasta laugardag í undanúrslitum Mjólkurbikarsins þar sem heimakonur í Val unnu 3-0. Pétur Pétursson, þjálfari Vals, gerði fimm breytingar á sínu liði frá þeim leik og bar þar hæst að Amanda Andradóttir settist á bekkinn og Berglind Björg Þorvaldsdóttir byrjaði sinn fyrsta leik fyrir Val. Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar, gerði engar breytingar á sínu liði milli leikja.

Þróttur hóf leikinn af krafti og voru í raun kraftmeiri og betri allan fyrri hálfleikinn. Valskonur virtust ekki alveg vera í takt.

Á 17. mínútu leiksins vildu gestirnir fá víti, í tvígang. Fyrst fékk Leah Pais hressilega bakhrindingu þegar hún stökk upp í skallabolta og í framhaldinu féll boltinn fyrir Kristrúnu Rut Antonsdóttur sem skaut boltanum í hönd Málfríðar Ernu Sigurðardóttur, varnarmanns Vals. Gunnar Freyr Róbertsson lét þó leikinn halda áfram, þrátt fyrir mikil mótmæli Þróttara og það sérstaklega úr stúkunni.

Fimm mínútum síðar komst Nadía Atladóttir í dauðafæri en skot hennar rúllaði fram hjá marki gestanna.

Á 37. mínútu fengu Valsarar annað gott færi en þar náði Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir að stýra boltanum í átt að marki af stuttu færi. Varnarmenn Þróttar náðu hins vegar á síðustu stundu að koma boltanum frá þegar hann var við það að renna í markið.

Stuttu síðar kom besta færi fyrri hálfleiksins þar sem Leah Pais lék á hvern varnarmann Vals á fætur öðrum og var komin ein gegn Fanneyju Ingu Birkisdóttur. Skotið var gott en Fanney Inga varð boltann á kraftmikinn hátt. Staðan markalaus í hálfleik.

Leikurinn leitaði í mikið jafnvægi í síðari hálfleik. Bæði lið áttu í erfiðleikum með að skapa sér færi og áttu í raun oft erfitt með að komast á síðasta þriðjung vallarins.

Eftir um klukkutíma leik gerði Pétur Pétursson tvöfalda skiptingu á sínu liði. Inn á komu þær Amanda Andradóttir og Fanndís Friðriksdóttir. Við þetta batnaði takturinn í leik heimakvenna.

Þróttur fékk tækifæri á 84. mínútu leiksins að skora fyrsta mark leiksins þegar Freyja Katrín Þorvarðardóttir skallaði boltann framhjá eftir skyndisókn.

Á 90. mínútu kom svo augnablikið sem réði úrslitum. Anna Rakel Pétursdóttir, bakvörður Vals, kom þá með fyrirgjöf inn á teig Þróttara. Varnarmenn gestanna fipuðust og misstu af boltanum sem endaði á því að rata til Ragnheiðar Þórunnar Jónsdóttur, sem potaði honum yfir marklínuna. Sigurmark leiksins kom því í blálokin og gestirnir náðu ekki að svara fyrir sig.

Atvik leiksins

Sigurmarkið var atvik leiksins. Eftir að hafa spilað vel nánast allan leikinn klikkaði varnarleikurinn á ögurstundu hjá Þrótti og Valskonur í sjöunda himni.

Stjörnur og skúrkar

Markaskorari leiksins, Ragnheiður Þórunn, var dugleg í leiknum í kvöld og var síógnandi þrátt fyrir að samherjar hennar fylgdu ekki eins vel í sóknarleik liðsins.

Hjá Þrótti átti Caroline Murray flottan leik. Skeiðaði upp kantinn ófáu sinnum og var líklegust í liði gestanna til þess að skapa mark.

Enginn skúrkur í raun og veru, en Berglind Björg Þorvaldsdóttir átti mjög erfitt uppdráttar í sínum fyrsta byrjunarliðsleik fyrir Val. Stöð og nokkuð þung á sér í flestum sóknaraðgerðum Vals í kvöld. Vonandi finnur Berglind Björg fjölina sína sem fyrst.

Dómarar

Gunnar Freyr Róbertsson átti ekkert spes frammistöðu í kvöld. Séð úr blaðamannastúkunni áttu Þróttarar að fá víti á 17. mínútu sem Gunnar Freyr dæmdi þó ekki. Einnig kom kafli í leiknum þar sem Gunnar Freyr blés heldur of sjaldan í flautu sína, en þar virtust vera nokkur brot sem sleppt var að dæma á.

Stemning og umgjörð

Flott mæting á leikinn. Þróttarar styðja vel við sitt lið og var mætt með þeim ung stuðningsmannasveit sem barði bumbur á taktfastan og ákveðin hátt ásamt því að koma hvetjandi skilaboðum til sinna leikmanna.

Tveir gamlir þjálfarar sem koma saman og ákveða að loka öllu

Pétur á hliðarlínunni.Vísir/Anton Brink

„Mjög gott að fá þrjú stig út úr þessu. Það var jafnteflislykt af þessu öllu, fannst mér, en við herjuðum aðeins á þær síðasta korterið og sem betur fer tókst það,“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals, eftir leik.

„Þetta var taktískur leikur. Tveir gamlir þjálfarar sem koma saman og ákveða að loka öllu, þetta var svolítið þannig leikur fannst mér. Mér fannst við koma sterkari út í seinni hálfleik og ánægjulegt að vinna þetta.“

Takturinn var ekkert frábær í Valsliðinu lengi vel í leiknum. Pétur benti á í því samhengi þær breytingar sem gerðar voru á byrjunarliðinu milli leikja sem og leikkerfinu.

„Við gerum náttúrulega fimm breytingar á liðinu frá síðasta leik og við spilum annað leikkerfi og auðvitað breytir það og auðvitað læra leikmenn það ekki á tíu mínútum.“

„Þó að þessi leikur hefði farið 0-0 þá erum við samt á góðum stað, en það gefur manni alltaf meira sjálfstraust að vinna leikina og það var sem betur fer það sem við gerðum. Gaman að sjá yngsta leikmanninn á vellinum klára leikinn,“ sagði Pétur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira