Hinn 17 ára gamli Nóel Atli kom nokkuð óvænt inn í lið Álaborgar seint á síðustu leiktíð og hjálpaði liðinu að tryggja sér sæti í efstu deild. Þegar liðið sótti gríðarlega öflugt lið Nordsjælland heim í kvöld þá fékk hann tækifæri í byrjunarliðinu sem vinstri bakvörður þrátt fyrir að vera miðvörður að upplagi.
Heimamenn voru hins vegar langt um sterkari aðilinn í leiknum og komust yfir strax á 8. mínútu þegar framherjinn öflugi Marcus Ingvartsen kom þeim yfir. Hægri bakvörðurinn Peter Ankersen, sem gekk í raðir Nordsjælland frá FC Kaupmannahöfn í sumar, bætti svo við öðru markinu á 19. mínútu og staðan 2-0 í hálfleik.
Nóel Atli var tekinn af velli á 66. mínútu leiksins en það var svo undir lok leiks sem Mads Hansen gerði út um dæmið fyrir Nordsjælland, lokatölur 3-0 og heimamenn byrja tímabilið af krafti á meðan Álaborg þarf heldur betur að spýta í lófana.