Formúla 1

Ocon verður fyrsti sigur­vegarinn til að keyra fyrir Haas

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Esteban Ocon er afburðaökumaður en hefur átt erfitt að undanförnu og leitar nú að nýjum tækifærum hjá Haas. 
Esteban Ocon er afburðaökumaður en hefur átt erfitt að undanförnu og leitar nú að nýjum tækifærum hjá Haas.  Qian Jun/MB Media/Getty Images

Esteban Ocon verður fyrsti Formúlu 1 sigurvegarinn til að aka fyrir Haas. Hann samdi við bandaríska félagið og mun mynda nýtt Haas lið á næsta ári með nýliðanum Oliver Bearman.

Haas hefur átt lið í Formúlu 1 síðan 2014 en aldrei fagnað brautarsigri, og aldrei haft ökuþór sem hefur unnið keppni, en það breytist á næsta ári þegar Ocon kemur til félagsins. Þar mun hann hitta liðsstjórann Ayao Komatsu en þeir unnu áður saman hjá Lotus.

Löngu var vitað að Ocon yrði ekki áfram hjá Alpine en félagið vildi ekki framlengja við hann eftir áreksturinn í Mónakó.

Nico Hulkenberg og Kevin Magnussen ákváðu sjálfir að láta gott heita hjá Haas og framlengdu ekki samninginn sem er að renna út eftir tímabilið.

Þetta verður nýtt upphaf fyrir Ocon, sem hefur sannað sig sem afburðaökumann og fagnað sigri í ungverska kappakstrinum 2021, en átt erfitt uppdráttar að undanförnu. Alpine hefur ekki gefið honum samkeppnishæfan bíl og liðsfélagi hans Pierre Gasly virðist fara agalega í taugarnar á honum.

Því skiljast leiðir Ocon og Enstone félagsins sem á Alpine og hefur áður gengið undir nöfnum Lotus og Renault.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×