„Sjálfbærnin er hvati nýsköpunar, sem knýr fyrirtæki til að þróa nýjar vörur, þjónustu og ferla sem eru ekki aðeins umhverfisvæn heldur einnig viðskiptalega árangursrík. Þessi skurðpunktur sjálfbærni og nýsköpunar er kraftur sem umbreytir atvinnugreinum og skapar samkeppnisforskot.“
Með tilliti til þeirra breytinga sem framundan eru í atvinnulífinu, þar sem sjálfbærnikröfur eru að aukast verulega, heldur Atvinnulífið áfram að fræðast um sjálfbærni.
Skór úr endurunnu sjávarplasti
Ketill segir ein stærstu viðskiptatækifæri sjálfbærni felast í þeim nýju lausnum sem fyrirtæki um allan heim þurfa nú að huga að.
„Því öll fyrirtæki neyðast til að endurskoða innri rekstur sinn og vöruhönnun til að lágmarka sóun, minnka kolefnisfótspor og nýta endurnýjanlegar auðlindir.“
Fjölmörg dæmi eru nú þegar sýnileg.
Sum hver jafnvel þannig að um byltingarkenndar nýjungar er að ræða.
„Sem dæmi vann Adidas í samstarfi við Parley for the Oceans skó úr endurunnu sjávarplasti,“ segir Ketill og bætir við:
Íslenski sjávarklasinn er einnig dæmi um hvernig betri nýting sjávarafurða hvetur til nýsköpunar og verðmætaaukningar.
Kerecis er síðan enn eitt dæmið um hvernig lausnamiðuð hugsun hjálpar til að nýta það sem áður var sorp í hágæða lækningarvörur.“

Það góða við þær áskoranir sem fyrirtæki standa nú frammi fyrir, er að atvinnulífið kann í eðli sínu að aðlaga sig að breyttum þörfum viðskiptavina.
„Þá fara fyrirtækin að þróa nýjar vörur og þjónustu til að mæta breyttum þörfum. Og í dag eru neytendur nú þegar farnir að óska í auknum mæli eftir vörum sem styðja sjálfbærni með umhverfisvernd og mannlegri nálgun, sem aftur þýðir að fyrirtæki eru að skapa sér ný viðskiptatækifæri og nýsköpun er í blóma.“
Nýtt viðhorf er líka ríkjandi. Þar sem hringrásarhagkerfið er í fyrirrúmi.
„Vörur eru hannaðar til endurnotkunar, viðgerða og endurvinnslu. Fyrirtæki eins og IKEA fjárfesta í hringlaga viðskiptamódeli og bjóða upp á þjónustu til að endurnýja og endurselja notuð húsgögn. Þetta lengir ekki aðeins endingartíma vara heldur stuðlar einnig að tryggð viðskiptavina og opnar nýja tekjustrauma.“
Sjálfbærnin stuðlar einnig að endurskoðuðu viðhorfi gagnvart nýtingu auðlinda.
„Sjálfbærnin þrýstir á að fyrirtæki hámarki nýtingu auðlinda og orkunotkunar. Þannig eru framleiðsluferli að gjörbreytast með tækni eins og gervigreind og Internet of things til að fylgjast með og draga úr orkunotkun,“ segir Ketill og nefnir sem dæmi:
„Til dæmis notar tæki Marel í matvælaiðnaði sjálfvirkni til að spara orku og lágmarka vatnsnotkun en fyrirtækið hannar tækin líka svo þau hámarki öryggi starfsfólks.“
Aukin samkeppni vinnumarkaðarins um hæft fólk, þarf líka að taka tillit til sjálfbærni.
„Sjálfbærniáhersla getur aukið vörumerkjaímynd fyrirtækis og laðað að sér hæfileikafólk. Nýsköpunarþenkjandi fagfólk laðast í auknum mæli að fyrirtækjum með sterka sýn í umhverfismálum. Þetta hæfileikaríka fólk kemur með skapandi lausnir og sjálfbærar nýjungar.“
Ketill segir sjálfbærni og nýsköpun því vera samtvinnuð atriði sem sjaldan hafa skipt jafn miklu máli og nú.
„Sjálfbærni er ekki bara reglufesta eða markaðsátak, heldur öflugur drifkraftur nýsköpunar og umbóta.
Með því að tileinka sér sjálfbæra starfshætti geta fyrirtæki uppgötvað ný viðskiptatækifæri, aukið hagkvæmni í rekstri og þróað nýjar vörur.
Þetta samband sjálfbærni og nýsköpunar er jarðvegur fyrir seigari, samkeppnishæfara og framsýnni fyrirtæki.“