Fótbolti

Á­frýja stiga­frá­drættinum en ekki leik­banni þjálfarans fyrr­verandi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bev Priestman mun ekki þjálfa næsta árið en Kanada vill þó stigin sín til baka.
Bev Priestman mun ekki þjálfa næsta árið en Kanada vill þó stigin sín til baka. Vaughn Ridley/Getty Images

Knattspyrnusamband Kanada hefur áfrýjað stigafrádrætti kvennalandsliðs þjóðarinnar en ekki leikbanni þjálfara þess.

Þannig er mál með vexti að sex stig voru dregin af Kanada fyrir keppni á Ólympíuleikunum sem fram fara í París eftir að í ljós kom að teymi kvennalandsliðsins hafði aflað gagna um mótherja sína með því að notast við dróna til að fylgjast með æfingum þeirra. Ásamt því að vera sex stig í mínus þá var þjálfari liðsins, Bev Priestman, dæmd í eins árs bann.

Ólympíunefnd Kanada hefur nú áfrýjað dóm Ólympíusambandsins til íþróttadómstólsins CAS. Þar segir að Kanada vonist til að stigafrádrátturinn verði núllaður út eða minnkaður til muna. Sambandið mun þó ekki mótmæla banni Priestman.

Kanada hefur þrátt fyrir allt unnið báða leiki sína í A-riðli en situr þó í 3. sæti án stiga. Nái það í stig – í ein- eða fleirtölu – gegn Kólumbíu í lokaleiknum eru allar líkur á að Kanada fari áfram í útsláttarkeppnina fari svo að fallist verði frá stigafrádrættinum eða hann minnkaður.

Breska ríkisútvarpið, BBC, greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×