Íslenski boltinn

Dramatískur Keflavíkursigur og ÍR bjargaði stigi á Dal­vík

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Keflvíkingar eru á góðri siglingu í Lengjudeild karla.
Keflvíkingar eru á góðri siglingu í Lengjudeild karla. vísir/diego

Keflavík vann dramatískan sigur á Þór, 3-2, þegar liðin mættust suður með sjó í Lengjudeild karla í kvöld. Þá gerðu Dalvík/Reynir og ÍR 1-1 jafntefli fyrir norðan.

Kári Sigfússon skoraði sigurmark Keflvíkinga í uppbótartíma. Þeir hafa unnið fjóra leiki í röð og eru í 4. sæti deildarinnar með 24 stig.

Oleksii Kovtun og Mihael Mladen komu Keflavík tvisvar yfir en Rafael Victor og Aron Ingi Magnússon jöfnuðu fyrir Þór. Gestirnir náðu hins vegar ekki að jafna í þriðja sinn eftir að Kári skoraði í uppbótartímanum og þriðja tap þeirra í röð staðreynd. Þór er í 8. sæti deildarinnar með sautján stig.

ÍR-ingar björguðu stigi á Dalvík þegar Marteinn Theodórsson skoraði á lokamínútu leiksins.

Heimamenn misstu mann af velli á 10. mínútu þegar Nikola Kristinn Stojanovic fékk rautt spjald fyrir brot á Bergvini Fannari Helgasyni.

Þrátt fyrir liðsmuninn náði Dalvík/Reynir forystunni á 67. mínútu þegar Áki Sölvason skoraði úr vítaspyrnu. Hagur heimamanna vænkaðist svo enn frekar átta mínútum seinna þegar Sæmundur Sven Schepsky var rekinn af velli hjá ÍR.

En Breiðhyltingar gáfust ekki upp og Marteinn jafnaði undir lokin. ÍR er í 5. sæti deildarinnar með 23 stig en Dalvík/Reynir á botninum með tíu stig. Dalvíkingar hafa gert sjö jafntefli í sumar en aðeins unnið einn leik.

Upplýsingar um úrslit og gang mála eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×