Í yfirlýsingu landanna þriggja sagði að það væri nauðsynlegt að Hamas og Ísrael kæmu aftur að samningaborðinu til að koma á vopnahlé og til að komast að samkomulagi um lausn gísla sem enn eru í haldi Hamas frá því í október. Í ákalli landanna þriggja kom fram að það væri engin ástæða eða afsökun til að fresta viðræðum frekar.
Pursuant to the proposal by the US and the mediators, Israel will – on 15 August – send the negotiations team to a place to be determined in order to finalize the details of the implementation of the framework agreement.
— Prime Minister of Israel (@IsraeliPM) August 9, 2024
Löndin þrjú hafa um mánaðarskeið reynt að aðstoða Hamas og Ísrael við að komast að samkomulagi svo hægt sé að binda enda á stríðið í Palestínu. Alls hafa um 40 þúsund látist á Gasa því að árásir Ísraela stigmögnuðust þar í kjölfar innrásar Hamas þann 7. október.

Í yfirlýsingu Katar, Egyptalands og Bandaríkjanna kom fram að fundirnir gætu annað hvort farið fram í Katar eða Doha þann 15. Ágúst og því bætt við að það væri tímabært að aflétta umsátursástandinu á Gasa og frelsa gíslana og binda þannig enda á þjáningu allra.
Samkvæmt yfirlýsingunni er rammi samkomulagsins tilbúinn en enn á eftir að fara yfir einhver einstök atriði.
Á vef Guardian segir að Hamas hafi enn ekki svarað ákallinu og því er enn ekki ljóst hvort þeir mæta þann 15. ágúst
Fyrirskipa brottflutning
Yfirlýsingin kom á sama tíma og ísraelski herinn endurnýjaði fyrirskipun um brottflutning Palestínumanna í eystri hluta Khan Younis. Fyrirskipunin var birt á samfélagsmiðlinum X en íbúar í suðurhluta Gasa sögðust hafa fengið SMS og hljóðskilaboð um brottflutninginn. Einhverjir lögðu af stað vestur til Al-Mawasi. Svæðinu er stýrt af mannúðarsamtökum en er ofsetið af fjölskyldum sem hafa þurft að flýja heimili sín á svæðinu.
Ástandið á svæðinu hefur verið spennuþrungið frá því að stjórnmálaleiðtogi Hamas, Ismail Haniyeh, var drepinn í lok síðasta mánaðar í Íran.

Á vef BBC segir að allar samningaviðræður geti verið gerðar enn erfiðari vegna ákvörðunar Hamas að kjósa Yahya Sinwar sem sinn nýja leiðtoga. Sinwar er talinn einn sá öfgafyllsti innan hópsins. Ísraelsk yfirvöld hafa sagt að það telji hann hafa skipulagt árásina í Ísrael þann 7. Október þar sem Hamas-liðar drápu um 1.200 hermenn og almenna borgara og tóku 253 gísla
Í frétt Guardian um málið er haft eftir bandarískum embættismanni að yfirlýsing Bandaríkjamanna, Katar og Egyptalands hafi ekki verið sniðin að því að reyna að hafa áhrif á Íran. Ef aðstæður muni stigmagnast á svæðinu muni setja samkomulagið á milli Ísrael og Hamas í hættu.
Þá er einnig haft eftir honum að hann eigi alls ekki von á því að samkomulagið verði undirritað á fundinum í næstu viku því enn eigi eftir að fara yfir ýmis alvarleg atriði er varða röðun samskipta á milli Hamas og Ísrael.