Enski boltinn

Liverpool hefur ekki enn boðið Van Dijk nýjan samning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er óvissa um framtíð Virgils van Dijk hjá Liverpool því hann gæti farið frítt næsta sumar.
Það er óvissa um framtíð Virgils van Dijk hjá Liverpool því hann gæti farið frítt næsta sumar. Getty/Andrew Powell

Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, er að renna út á samningi eftir þetta tímabil en sá hollenski segist ekki hafa fengið nýtt samningstilboð frá félaginu.

ESPN segir frá þessu en leikmaðurinn var i viðtali eftir síðasta leik liðsins.

Van Dijk er einn af þremur lykilmönnum liðsins á lokaári síns samnings en hinir eru Mohamed Salah og Trent Alexander-Arnold.

„Það er engin breyting eins og staðan er núna,“ sagði Van Dijk eftir 4-1 sigur á Sevilla í æfingarleik á Anfield í gær.

Liverpool hefur ekki enn keypt neinn leikmann í sumar en stóra breytingin er þegar Arne Slot tók við sem knattspyrnustjóri af Jürgen Klopp.

Van Dijk er vongóður um að fá nýja leikmenn í hópinn.

„Auðvitað finnst mér að við ættum að kaupa einhverja leikmenn enda langt tímabil fram undan. Þeir eru að vinna í þessu á bak við tjöldin og ég hef fulla trú á því og treysti félaginu til að gera það rétta í stöðunni. Þeir munu setja saman besta mögulega liðið til að hjálpa okkur að keppa um titla á öllum vígstöðvum,“ sagði Van Dijk.

Van Dijk er 33 ára gamall og hefur spilað með Liverpool frá því í janúar 2018. Hann tók við fyrirliðabandinu þegar Jordan Henderson yfirgaf félagið í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×