Sport

„Þetta er ekki stríð, þetta er í­þrótt“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brent Fikowski er einn sá allra besti í CrossFit íþróttinni og hefur verið það lengi. Hann er líka einn þeirra sem hefur reynt að berjast fyrir meira öryggi keppenda.
Brent Fikowski er einn sá allra besti í CrossFit íþróttinni og hefur verið það lengi. Hann er líka einn þeirra sem hefur reynt að berjast fyrir meira öryggi keppenda. @fikowski)

Besta CrossFit fólks heims beinir nú spjótum sínum að CrossFit samtökunum eftir að Lazar Dukic drukknaði í fyrstu grein heimsleikanna.

Utanaðkomandi rannsókn er farin í gang og CrossFit samtökin gáfu það formlega út að þau ætli að virða niðurstöður hennar og gera í kjölfarið þær breytingar sem þarf að gera.

Það er þó eins og CrossFit fjölskyldan sé búin að ákveða það hvar sökin liggur. Öryggisleysi og keppni í að gera greinarnar sem erfiðastar hafi fyrir löngu farið yfir öll velsæmismörk.

Fjöldi toppfólks í CrossFit íþróttinni hafa sameinast í því að gagnrýna það hvernig CrossFit samtökin hafa hunsað áhyggjuraddir íþróttafólksins. Fyrir vikið hafa skipuleggjendur hugsað lítið sem ekkert um öryggi keppenda á heimsleikunum.

Okkar bestu konur tjá sig

Katrín Tanja Davíðsdóttir skrifaði pistil um að það hafi ekki verið hlustað á íþróttafólkið og Anníe Mist Þórisdóttir segir íþróttina sem hún elskar hafi brugðist Lazar. Sara Sigmundsdóttir er ein af þeim sem skilur ekki hvernig Lazar fékk enga aðstoð þegar hann var í vandræðum.

Einn af reynslumestu körlunum er Kanadamaðurinn Pat Vellner en hann hefur unnið þrenn silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun á heimsleikunum.

„Þetta er ekki stríð, þetta er íþrótt. Mér líður eins og við höfum verið að reyna, af einhverri ástæðu, að finna þolmörk íþróttafólksins í allt of langan tíma. Nú höfum við fundið þau,“ sagði Pat Vellner í samtali við Buttery Bros.

Brent Fikowski, sem varð þriðji á heimsleikunum í ár og er einnig mjög reynslumikill, lýsti einnig yfir vonbrigðum sínum með CrossFit samtökin. Fikowski skrifaði langan pistil á samfélagsmiðla þar sem hann fór yfir sitt mat á stöðunni.

Engin þeirra hefur þjálfað eða keppt

„Þegar við höfum bent á þörf á breytingum þá er svarið alltaf: Hafið engar áhyggjur, við erum með þetta á hreinu. Við skiljum þetta betur en þið,“ skrifaði Fikowski.

„Vandamálið er að enginn í þeirra liði hefur keppt eða þjálfað á hæsta stigi í þessari íþrótt. Þeir leyfa heldur ekki íþróttafólkinu að vera með í ráðum því allt á að vera svo leyndardómsfullt,“ skrifaði Fikowski.

Hann segir að hann ásamt fleiri reynsluboltum hafi boðið fram aðstoð sína en öll hafi misst áhugann því það skili engu.

Hef ekki trúað því í langan tíma

„Ég veit að CrossFit samtökin ætla sér ekki að meiða neinn en þegar þau segja að öryggi sé í forgangi þá ég hef ég ekki trúað því í langan tíma. Ég tel að í forgangi hafi alltaf verið að búa til sem erfiðasta prófið og hafa frelsi til að prófa allt sem þeim dettur í hug. Öryggi íþróttafólksins er alltaf sett í annað sætið,“ skrifaði Fikowski eins og sjá má hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Katrín Tanja: Ekki verið hlustað á okkur

Íslenska CrossFit konan Katrín Tanja Davíðsdóttir er ein þeirra sem hafa minnst serbneska CrossFit mannsins Lazar Dukic. Hún er líka í hópi þess fólks í CrossFit fjölskyldunni sem hefur bent á þá staðreynd að íþróttafólkið hafi lengi haft áhyggjur af öryggi sínu í krefjandi keppni við hættulegar aðstæður.

Anníe Mist: Íþróttin sem við elskum öll brást Lazar

Íslenska CrossFit goðsögnin Anníe Mist Þórisdóttir skrifaði minningarorð um Lazar Dukic. Hún hefur eins og fleiri í CrossFit heiminum, átt mjög erfitt með að meðtaka þennan hryllilega atburð þegar Dukic drukknaði í fyrstu grein heimsleikanna á fimmtudaginn var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×