Lífið

Litla Melabúðin slær í gegn hjá Vesturbæingum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Verslunarrekendurnir fjórir, frá vinstri: Laufey, Halldóra, Anna og Matthildur.
Verslunarrekendurnir fjórir, frá vinstri: Laufey, Halldóra, Anna og Matthildur. Vísir/Bjarni

Fjórar stelpur sem staðið hafa í verslunarrekstri um helgina segja framtakinu hafa verið vel tekið. Þær hafa selt heimagerða hafraklatta og sultur fyrir utan Melabúðina, til styrktar börnum á Gasa.

Stelpurnar fjórar eru sex og sjö ára og heita Matthildur, Laufey, Anna og Halldóra. Þær voru glaðar í bragði þegar fréttastofa leit til þeirra síðdegis í dag. Þá var sultan þegar búin, og aðeins tveir hafraklattar eftir. Það má því með sanni segja að framtakinu hafi verið vel tekið.

Verslunin, sem stelpurnar stilltu upp beint fyrir utan Melabúðina, er búin til úr pappakassa utan af ísskap, er fallega skreytt og máluð, og ber einfaldlega heitið Litla Melabúðin.

Aðspurðar voru stelpurnar ekki með á hreinu hversu miklu þær höfðu safnað fyrir Rauða krossinn, sem kemur svo til með að senda fjármunina til aðstoðar börnum á Gasa. Þær voru þó handvissar að um mikla fjármuni væri að ræða. Miðað við aðsóknina í verslunina og þá staðreynd að allt var við það að klárast er ekki ólíklegt að það sé rétt.

Rætt var við stelpurnar í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld, en fréttina má sjá hér að ofan. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×