Fótbolti

Jóhann kynntur til leiks í Sádi-Arabíu

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson er fyrirliði íslenska landsliðsins.
Jóhann Berg Guðmundsson er fyrirliði íslenska landsliðsins. Getty/Marcel ter Bals

Landsliðsfyrirliði Íslands í fótbolta, Jóhann Berg Guðmundsson, er orðinn leikmaður Al Orobah í Sádi-Arabíu. Þetta staðfesti félagið með myndbandstilkynningu í dag.

Jóhann, sem verður 34 ára í október, kveður þar með Burnley þar sem hann hefur spilað frá EM-árinu 2016. Hann lék 200 deildarleiki fyrir Burnley og skoraði sitt fimmtánda mark fyrir liðið í kveðjuleiknum um síðustu helgi.

Burnley og Al Orobah greina bæði frá vistaskiptum Jóhanns í dag en kaupverðið er ekki gefið upp.

Hjá Al Orobah mun Jóhann leika undir stjórn Portúgalans Álvaro Pacheco sem tók við liðinu í sumar. Jóhann verður einn af nokkrum erlendum leikmönnum liðsins en þeirra þekktastur er líklega Vurnon Anita, fyrrverandi leikmaður Newcastle og Leeds.

Al Orobah er nýliði í efstu deild Sádi-Arabíu og byrjar leiktíðina á að mæta bronsliði Al Ahli í kvöld.

Jóhann Berg er annar Íslendingurinn sem samið hefur við knattspyrnufélag í Sádi-Arabíu í sumar því stærstu félagaskiptin í efstu deild kvenna í Sádi-Arabíu í sumar eru koma Söru Bjarkar Gunnarsdóttur til Al-Qadsiah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×