Byrjaði fimmtán ára
Snorri, sem er 23 ára gamall, hefur verið viðriðinn tónlist allt sitt líf og byrjaði snemma að vinna í geiranum.
„Ég byrja í tónleikabransanum um fimmtán ára aldur sem „runner“ fyrir teymin sem sáu um tónlistarhátíðirnar Secret Solstice, Airwaves og Sónar á sínum tíma með Siggu Óla, Agli Ástráðssyni bróður minn og Alexis Garcia í fararbroddi.
Ég stofna tónlistarhátíðina Hip Hop Hátíðin ári síðar ásamt góðum vinum og hef svo ekki litið til baka. Ég myndi þó segja að ferill minn sem tónleikahaldari byrji af alvöru þegar ég, Sigga, Egill og Alexis stofnum tónleikafyrirtækið Garcia Events í loks árs 2021.“
Mikill heiður að vera valinn á lista „New Bosses 2024“
Snorri segir að tilnefningin í tímaritinu sé mjög kærkomin.
„Mér hlotnaðist sá mikli heiður nýverið að vera valinn á 20 under 30 lista tónlistarbransa tímaritsins IQ Magazine sem ber heitið „New Bosses 2024“.
Tímaritið er þekkt stærð í bransanum og því er þetta mikil viðurkenning fyrir mig og það starf sem ég hef verið að vinna fyrir Garcia Events og sömuleiðis þá tónlistarmenn sem ég starfa fyrir.
Þetta er auðvitað bara mikill heiður og meðbyr fyrir framhaldið, þetta gefur manni líka aukinn trúverðugleika (e. credibility) gagnvart tónlistarbransanum ytra og mun vafalaust gera mér kleift að búa til sterkari og fleiri sambönd við lykilfólk í bransanum úti.“
Lauk námi í tónlistarviðskiptum
Snorri flutti til Kaupmannahafnar sumarið 2021 ásamt Brynju kærustunni sinni.
„Ég fór út til þess að stunda nám í tónlistarviðskiptum sem ég lauk núna í vor og varð ásamt öðru til þess að ég ræð mig inn til alþjóðlega tónleikafyrirtækisins All Things Live núna í lok sumars.“
Hann segist ekki vera á heimleið á næstunni.
„Lífið í Kaupmannahöfn er einstaklega ljúft og ég er svo heppinn að starfa í þannig bransa að reglulegar ferðir heim á klakann eru partur af vinnunni. Því finnur maður sjaldan fyrir heimþrá. Maður kemur þó alltaf heim á endanum en hvenær það verður mun ráðast seinna.“
Vill halda áfram að lyfta upp íslenskri tónleikadagskrá
Hann segir daglegt líf úti ansi hefðbundið.
„Ég er að vinna níu til fimm, elda eitthvað gott, er duglegur hreyfa mig og horfa á eitthvað skemmtilegt. Svo hristir maður upp í þessu um helgar og fer á tónleika eða hittir vini. Svo má ekki gleyma þriðjudags körfuboltanum, það er möst.“
Snorri segist þrífast vel í tónleikahaldi. Aðspurður hvort hann sé með eitthvað ákveðið markmið í starfinu svarar hann:
„Það er svo sem ekkert fast langtímamarkmið, mig langar að búa til sem mest af góðri upplifun fyrir fólk með tónleikahaldi og halda áfram að lyfta upp íslenskri tónleikadagskrá með spennandi erlendum atriðum.
Ekki væri verra ef það fæli sömuleiðis í sér að halda mína eigin tónlistarhátíð en það á eftir að ráðast.“