Fótbolti

Jóhann sagður fá Sergio Ramos sem liðsfélaga

Sindri Sverrisson skrifar
Sergio Ramos lék síðast með Sevilla á Spáni.
Sergio Ramos lék síðast með Sevilla á Spáni. Getty/Joaquin Corchero

Spænska fótboltastjarnan Sergio Ramos er á leið til Al-Orobah í Sádi-Arabíu og verður þar með liðsfélagi landsliðsfyrirliðans Jóhanns Bergs Guðmundssonar.

Belgíski blaðamaðurinn Sacha Tavolieri greinir frá þessu á Twitter en hann sagði einnig frá því þegar Jóhann var að færa sig yfir til Sádi-Arabíu.

Uppfært kl. 11.30: Ítalski blaðamaðurinn Fabrizio Romano segir að Ramos sé ekki búinn að ákveða sig varðandi næsta skref á ferlinum.

Ramos á að sjálfsögðu afar glæstan feril en þessi 38 ára miðvörður lék um langt árabil með Real Madrid og spænska landsliðinu, og rakaði inn titlum.

Hann fór frá Real til PSG árið 2021 og var svo á síðustu leiktíð með Sevilla þar sem hann spilaði 28 deildarleiki og skoraði þrjú mörk.

Ramos lék 180 leiki fyrir Spán á sínum landsliðsferli og varð heimsmeistari og tvisvar Evrópumeistari með liðinu. Hjá Real vann hann meðal annars Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum og sex Spánarmeistaratitla, og með PSG varð hann franskur meistari í tvígang.

Al-Orobah er nýliði í efstu deild Sádi-Arabíu og hefur verið að styrkja sitt lið með þekktum nöfnum. Auk Jóhanns er Cristian Tello orðinn leikmaður liðsins, og Kurt Zouma miðvörður West Ham var í vikunni sagður á leið til félagsins.

Al-Orobah tapaði í gær 2-1 gegn Al Wehda þar sem Jóhann lagði upp eina mark liðsins. áður hafði Al-Orobah tapað 2-0 gegn Al-Ahli í fyrstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×