Það er ekki mikið hægt að kvarta yfir fyrsta leiknum hjá Cecilíu því Internazionale vann þá 5-0 stórsigur á Sampdoria í fyrstu umferðinni.
Cecilía Rán stóð sig mjög vel og var valin í lið umferðarinnar af ítölsku deildinni.
Þrátt fyrir þennan stórsigur þá var nóg að gera hjá okkar konu. Hún greip þrettán sinnum inn í og varði öll fimm skotin sem á hana komu. Aðeins einn markvörður í deildinni varði fleiri skot í umferðinni. Enginn leikmaður náði boltanum oftar.
Cecilía er ein af fjórum leikmönnum Inter í úrvalsliðinu. Þessi úrslit boða gott fyrir framhaldið og það er líka mikið gleðiefni fyrir íslenska landsliðið að Cecilía sé að spila reglulega og hvað þá að hún sé að spila vel.