Cheptegei var flutt á neyðarmóttöku sjúkrahúss í Eldoret í Kenía á sunnudaginn, eftir árásina, og var þá með brunasár á 75% líkamans. Hún hafði verið við æfingar í borginni, þar sem hún á heima, eftir að hafa keppt í maraþoni á Ólympíuleikunum í París í síðasta mánuði.
Ekki tókst að bjarga lífi Cheptegei en stjórnandi á Moi Teaching and Referral sjúkrahúsinu sagði við keníska blaðið The Star að hún væri því miður látin eftir að öll líffæri hennar hættu að starfa í gærkvöldi.
On behalf of #TeamKenya we extend our deepest condolences to the Ugandan sports community, family, and friends of Rebecca Cheptegei.
— TeamKenya (@OlympicsKe) September 5, 2024
Rebecca’s talent, and perseverance as Uganda’s Women’s Marathon record holder and a Paris 2024 Olympian will always be remembered and celebrated.… pic.twitter.com/k3hNYB9WOP
Lögregla segir að fyrrverandi kærasti Cheptegei, sem sagður er heita Dickson Ndiema, hafi keypt brúsa af bensíni, hellt yfir hana og kveikt í, eftir ósætti þeirra á milli á sunnudaginn. Árásin átti sér stað á heimili Cheptegei og brenndist Ndiema einnig illa. Nágrannar náðu að koma Cheptegei til bjargar en nú er komið í ljós að það var of seint.
Sögð hafa deilt vegna landsvæðis Cheptegei
Faðir Cheptegei, Joseph, og systir hennar Evalyne Chelagat, ræddu við fjölmiðla á sjúkrahúsinu fyrr í þessari viku og sögðu ósættið hafa verið vegna landsvæðis í eigu Cheptegei.
„Þau voru bara vinir og ég velti fyrir mér hvers vegna hann vildi taka eitthvað sem var í eigu dóttur minnar,“ sagði pabbinn við The Star. Þar greindi hann jafnframt frá því að Cheptegei léti eftir sig tvö börn sem ættu annan föður og byggju í Úganda.
Þriðja hlaupakonan á þremur árum myrt af maka
Cheptegei varð í 44. sæti í maraþoninu í París á Ólympíuleikunum. Hún vann gullverðlaun á heimsmeistaramóti í fjallahlaupi í Taílandi árið 2022.
Þetta er í þriðja sinn á þremur árum sem að hlaupakona er myrt í Kenía. Damaris Mutua fannst látin á heimili sínu árið 2022 eftir að hafa verið kæfð með kodda, og Agnes Tirop hafði nokkrum mánuðum fyrr verið stungin til bana. Í báðum tilvikum beinist aðalgrunurinn að maka en eiginmaður Tirop hefur verið ákærður fyrir morð og leit stendur yfir að kærasta Mutua.