Fótbolti

Segir Ís­land betra liðið: „Nýtt upp­haf og spennandi tímar“

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson í leik gegn Portúgal í undankeppni EM síðasta vetur. Hann er klár í aðra tilraun til að komast á stórmót.
Ísak Bergmann Jóhannesson í leik gegn Portúgal í undankeppni EM síðasta vetur. Hann er klár í aðra tilraun til að komast á stórmót. Getty/Alex Nicodim

Ísak Bergmann Jóhannesson segir að leiðin á HM hefjist í kvöld þegar Ísland tekur á móti Svartfjallalandi í Þjóðadeildinni í fótbolta. Um sé að ræða nýtt upphaf og spennandi tíma hjá landsliðinu.

Leikur Íslands og Svartfjallalands hefst klukkan 18:45 í kvöld og er í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport. Ítarleg umfjöllun verður á Vísi.

Ísak hefur verið að gera frábæra hluti með Düsseldorf sem eftir að hafa haft hann á láni keypti þennan 21 árs gamla miðjumann í sumar.

Hann vill einnig ná langt með íslenska landsliðinu og er meðvitaður um að sigur í riðlinum í Þjóðadeildinni getur gefið Íslandi sæti í umspili um að komast á HM í Ameríku 2026.

„Þetta er nýtt upphaf og spennandi tímar fram undan. Gylfi og Jói eru náttúrulega ennþá með okkur en margir ungir eru búnir að skipta um lið og komnir á góða staði hjá klúbbunum sínum, svo ég er mjög spenntur fyrir þessu,“ segir Ísak, ánægður með andann í íslenska hópnum:

„Það er kjarni hérna, við erum nokkrir ungir leikmenn sem höfum spilað saman upp alla yngri flokkana í landsliðunum saman, svo það er mjög góð orka í hópnum.“

Viðtal Stefáns Árna Pálssonar við Ísak má sjá hér að neðan.

Klippa: Ísak í lykilhlutverki og á toppnum

„Getur gefið okkur þvílíkt mikilvæga leiki“

Eins og fyrr segir þá hefur Þjóðadeildin áhrif á umspil um sæti á stórmótum, að þessu sinni HM 2026, en Ísland þarf þá að vinna sinn riðil sem í eru Svartfjallaland, Tyrkland og Wales.

„Eins og sýndi sig síðast, í umspilinu fyrir EM í mars, þá eru þetta ekki bara einhverjir æfingaleikir. Þetta getur gefið okkur þvílíkt mikilvæga leiki upp á að komast á HM. Auðvitað er langt í HM en þetta byrjar núna og ef við vinnum þessa leiki hér þá eigum við góða möguleika á að komast í umspil aftur. Það er gríðarlega spennandi,“ segir Ísak.

Ísak Bergmann Jóhannesson er á toppi þýsku 2. deildarinnar með Düsseldorf.Getty/Roland Weihrauch

Fyrsta mál á dagskrá er að eiga við Stevan Jovetic og félaga í svartfellska liðinu, á Laugardalsvelli í kvöld:

„Við höfum farið yfir þá síðustu daga. Jovetic er mjög góður leikmaður og þeir eru með sterka leikmenn innanborðs. En mér finnst við vera með betra lið. Við eigum að fara „full force“, sækja og reyna að vinna leikinn hérna heima.“

Orðinn lykilmaður í Þýskalandi

Ísak spilar í næstefstu deild Þýskalands og er þar á toppi deildarinnar með liði Düsseldorf, eftir fjórar umferðir. Hann kann afar vel við sig hjá félaginu og ætlar sér með liðinu upp í efstu deild:

„Þeir keyptu mig núna í sumar og ég er orðinn lykilleikmaður, spila allar mínútur og við erum efstir eins og er. Allt í kringum klúbbinn, stuðningsmenn, leikmennirnir, þjálfararnir… mér líður bara ótrúlega vel og það er geðveikt að vera á svona stað þar sem maður er vel metinn.

Við vorum grátlega nálægt því síðast, eða einu víti, að komast í Bundesliguna. Það er draumurinn að komast þangað. Hún er ásamt ensku úrvalsdeildinni stærsta deildin. Við erum efstir núna og ætlum að gera einum betur en síðast,“ segir Ísak.


Tengdar fréttir

„Ekki byrjunin sem maður bjóst við að þjálfarinn myndi hætta eftir einn leik“

„Þetta er spennandi tækifæri til þess að byrja vel með þremur stigum á heimavelli,“ segir Stefán Teitur Þórðarson landsliðsmaður og leikmaður enska liðsins Preston, fyrir landsleikinn gegn Svartfellingum á Laugardalsvelli annað kvöld. Leikurinn er fyrsti leikur liðsins í riðlakeppni Þjóðadeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×