Innlent

Arnar Þór á leið í nýjan flokk

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Arnar Þór boðar tilkynningu eftir helgi um hvaða flokk hann gengur til liðs við.
Arnar Þór boðar tilkynningu eftir helgi um hvaða flokk hann gengur til liðs við.

Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi forsetaframbjóðandi og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, hyggst tilkynna eftir helgi hvaða flokk hann fari í framboð fyrir. Hann hafi íhugað stofnun nýs flokks en það væri erfitt í núverandi ástandi.

Arnar Þór greindi frá þessu í Vikulokunum á Rás 1.

Arnar sagði í þættinum að flestir flokkar landsins væru sósíaldemókratískir framsóknarflokkar og að fólk væri búið að tapa trú á stjórnmálunum. 

Mikil þörf væri á því að stofna borgaralegan klassískan íhaldsflokk sem væri hægra megin við miðju, slíkan flokk vantaði á Íslandi. Hins vegar væri of tímafrekt að ráðast í stofnun slíks flokks í núverandi ástandi.

Þá sagði hann að Sjálfstæðisflokkurinn hefði vikið sér undan sínu sögulega hlutverki og væri orðinn „woke sósíaldemókratískur ESB-flokkur sem stefnir núna að því að auka áhrif ESB með framlagningu á bókun 35 eða breyting á EES-samningnum.“

Þá sagði Arnar þessa framboðs-meðgöngu hafa verið lengri en hann hafði séð fyrir sér vegna þess að hann hafi þurfti að eiga svo mörg samtöl við fólk innan stjórnmálanna og úti í þjóðlífinu sem vildi sjá breytingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×