Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég fer á fætur um klukkan sjö. Klukkan er stillt á 10 mínútur yfir en ég er eiginlega alltaf vöknuð á undan klukkunni.
Væri alveg til í að sofa lengur, en ég vakna eiginlega alltaf á sama tíma, líka um helgar. Bæti það svo bara upp með síðdegisblundi á sunnudögum.
Mæli með að sofna yfir bók á frídögum.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Skvetti framan í mig köldu vatni og geri svo kaldpressaðan djús með rauðrófum, engifer og turmerik. Svo mala ég kaffi í mokkakönnuna og þykist rifja upp spænskuna á meðan ég bíð eftir kaffinu. Ég lít samt meira á Duolingo sem keppni, því ég ruslast í gegn um eins margar æfingar og ég get til að fá stig. Er ekki viss um að það sitji mikið eftir.“
Hefur þú einhvern tíma, nú eða í fortíðinni, dottið niður í sjónvarpsgláp á frekar hallærislegu efni, jafnvel sápuóperu?
Ha ha já, ég og yngsta dóttir mín höfðum þann sið að horfa alltaf á Biggest Looser á föstudagskvöldum og úða í okkur bragðaref á meðan.
Svo átti ég það til að horfa á bandarískar sápuóperur þegar ég var Au Pair í New York á sínum tíma. Tilvalið sjónvarpsefni á meðan maður straujar.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Við erum á fullu að undirbúa 20 ára afmæli vefverslunar Kokku. Trúi því varla að það sé svona langt um liðið síðan hún fór í loftið, en það var þann 1. Október 2004. Þetta er hár aldur fyrir íslenska vefverslun og það verður haldið upp á það með pompi, prakt og tilboðum.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
Ég hef alltaf átt erfitt með að skipuleggja mig, ég byrja vinnudaginn á að rifja upp hvað ég náði ekki að klára í gær og hefst svo handa.
Mæti flesta daga nógu snemma til að koma einhverri skrifstofuvinnu í verk áður en búðin opnar.
Það er erfitt að einbeita sér að sliku þegar maður er í þjónustustarfi því mikilvægasta verkefnið er alltaf viðskiptavinurinn sem stendur fyrir framan þig.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Yfirleitt of seint, við erum aldrei komin heim úr vinnu fyrr en eftir hálf sjö svo við borðum kvöldmat frekar seint. Ég fer líka í pilates tvisvar í viku og er þá ekki komin heim fyrr en um átta leytið. Svo er gott að geta aðeins slakað af á sófanum eftir mat. Ég reyni að vera komin undir sæng með bók um hálf tólff, en tekst það ekki alltaf.“