Fótbolti

Guð­rún sænskur meistari eftir sigur í Ís­lendinga­slag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðrún Arnardóttir varð sænskur meistari 2022 og aftur í ár.
Guðrún Arnardóttir varð sænskur meistari 2022 og aftur í ár. Rosengård

Guðrún Arnardóttir og stöllur hennar í Rosengård eru Svíþjóðarmeistarar kvenna í knattspyrnu eftir ótrúlegt tímabil. 

Liðið hefur unnið alla 22 leiki sína, skorað 89 mörk og fengið á sig aðeins sex. Enn eru fjórar umferðir til loka tímabilsins en titillinn er kominn í hús.

Guðrún var á sínum stað í hjarta varnarinnar þegar Rosengård tók á móti Íslendingaliði Kristianstad í dag. Guðný Árnadóttir og Katla Tryggvadóttir voru í byrjunarliði gestanna en Hlín Eiríksdóttir var fjarri góðu gamni.

Hin þýska Rebecca Knaak kom toppliðinu í 1-0 á 19. mínútu og bætti svo við öðru marki sínu á 77. mínútu sem fór í raun langa leið með að tryggja bæði sigurinn og titilinn. 

Tilda Sanden minnkaði muninn fyrir gestina á 86. mínútu en Rosengård hélt út og gríðarleg fagnaðarlæti brutust út þegar lokaflautið gall.

Lokatölur 2-1 og Rosengård sænskur meistari eftir ótrúlegt tímabil. Nú er bara að bíða og sjá hvort þær klári tímabilið með fullt hús stiga eða hvort meistaraþynnkan segi til sín.


Tengdar fréttir

Gáfu skít í yfir­mann sem hreykti sér af þeirra af­rekum

Landsliðskonan Guðrún Arnardóttir og liðsfélagar hennar í Rosengård eru lítt hrifnar af tilraunum Roger Palmgren, yfirmanns knattspyrnumála hjá félaginu, til að eigna sér heiður að gríðarlegri velgengni liðsins í ár. Segja má að þær gefi skít í ummæli hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×