Íslenski boltinn

Katrín ekki með slitið kross­band

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Katrín í leikslok.
Katrín í leikslok. Vísir/Diego

Katrín Ásbjörnsdóttir varð um helgina í Íslandsmeistari þegar Breiðablik gerði markalaust jafntefli við Val á Hlíðarenda. Hún fagnaði titlinum á sjúkrabörum eftir að meiðast illa á hné í leiknum. Fyrst var óttast að krossbandið hefði slitnað en það var sem betur fer ekki raunin.

Katrín var að vinna sinn þriðja Íslandsmeistaratitil á ferlinum en hún varð Íslandsmeistari árið 2012 með Þór/KA og svo Stjörnunni fjórum árum síðar, 2016. Katrín gat þó ekki fagnað titli helgarinnar á hefðbundinn hátt þar sem hún sat á sjúkrabörum.

Það leit út fyrir að Katrín hefði slitið krossband en í dag fékk þessi öflugi framherji staðfest að svo er ekki.

„Sem betur fer, en það er einhver grunur um að hnéskelin hafi farið úr lið,“ sagði Katrín í viðtali við Fótbolti.net fyrr í dag, mánudag.

„Ég fékk einhverjar myndir sendar eftir leikinn og þá sést að fóturinn var í svaka snúningi, í stöðu sem ég vissi ekki að hann gæti farið í,“ sagði Katrín einnig. Hún tók einnig fram að hún væri farin að stíga í fótinn og það styttist í að hún fengi að vita nákvæmlega hvers eðlis meiðslin voru.

Þó sigurtilfinningin hafi haft betur gegn sársaukanum í leikslok þá sá Katrín sér ekki fært að vera með allt lokahóf Breiðabliks sem fór fram á laugardagskvöld.

„Kíkti aðeins á þær rétt til að segja hæ en fór svo bara heim,“ sagði Katrín í viðtalinu sem finna má í heild sinni á Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×