Enski boltinn

Gott fyrir Heimi en á­fall fyrir Liverpool

Sindri Sverrisson skrifar
Alisson heldur um lærið eftir að hafa meiðst í leiknum við Crystal Palace.
Alisson heldur um lærið eftir að hafa meiðst í leiknum við Crystal Palace. Getty/Jacques Feeney

Nú er orðið ljóst að Liverpool verður án brasilíska markvarðarins Alisson næstu sex vikurnar, eða fram yfir landsleikjahléið í nóvember, vegna meiðsla.

Alisson fór meiddur af velli í 1-0 sigrinum gegn Crystal Palace á laugardaginn og eftir nákvæma skoðun er nú ljóst hve alvarleg meiðslin eru, en um tognun aftan í læri er að ræða.

Liverpool þarf því að reiða sig á Caoimhin Kelleher, markvörð írska landsliðsins hans Heimis Hallgrímssonar. Það ættu því að vera góðar fréttir fyrir Heimi og Íra en Kelleher er aðalmarkvörður írska landsliðsins þrátt fyrir að hafa lítið spilað fyrir Liverpool. Hann á fyrir höndum leiki við Finnland og Grikkland í Þjóðadeildinni.

Kelleher fær væntanlega fjölda erfiðra leikja í fjarveru Alisson, því Liverpool á fyrir höndum leiki við Chelsea, Arsenal, Brighton og Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni, og leiki við RB Leipzig og Leverkusen í Meistaradeild Evrópu, auk leiks við Brighton í deildabikarnum.

Liverpool keypti georgíska landsliðsmarkvörðinn Giorgi Mamardashvili frá Valencia í ágúst en hann kemur ekki til félagsins fyrr en næsta sumar.

Vitezslav Jaros verður Kelleher til halds og trausts en Jaros kom inn á þegar Alisson meiddist, þar sem Kelleher var ekki með vegna veikinda.

Liverpool hefur aðeins fengið á sig tvö mörk það sem af er leiktíð í úrvalsdeildinni, langfæst allra liða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×