Enski boltinn

Milan vill að Zlatan sæki landa sinn frá Manchester

Smári Jökull Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic starfar sem ráðgjafi hjá AC Milan.
Zlatan Ibrahimovic starfar sem ráðgjafi hjá AC Milan. Vísir/Getty

AC Milan hefur áhuga á að næla í Victor Lindelöf frá Manchester United til að styrkja meiðslahrjáða varnarlínu sína. Þeir telja sig vera með rétta manninn til að sannfæra Svíann um að færa sig um set til Ítalíu.

AC Milan hefur farið brösuglega af stað í ítölsku deildinni en meistararnir sitja í 6. sæti deildarinnar nú þegar landsleikahléið er að hefjast. Þar að auki er félagið í töluverðum meiðslavandræðum en til að mynda eru Davide Calabria, Alessandro Florenzi, Malick Thiaw og Ismael Bennacer frá vegna meiðsla.

Forráðamenn AC Milan eru á höttunum á eftir styrkingu fyrir vörnina og vilja fá Svíann Victor Lindelöf frá Manchester United en Lindelöf hefur að mestu leyti mátt verma varamannabekkinn hjá United hingað til á tímabilinu.

Samkvæmt Milan Live er það Zlatan Ibrahimovic, sem starfar sem ráðgjafi hjá Mílanóliðinu, sem á að sannfæra Lindelöf um að færa sig til Ítalíu en nágrannafélagið Inter ku einnig vera áhugasamt um þjónustu Lindelöf. Þeir léku saman hjá United og sænska landsliðinu á sínum tíma og vill Milan að Zlatan nýti sér samband sitt við Lindelöf sem er fyrirliði sænska landsliðsins.

Samningur Lindelöf rennur út að tímabilinu loknu og ætlar Milan að reyna að fá Lindelöf frítt þegar samningurinn rennur út. Þeir gætu þó freistast til að ná samkomulagi við United um sanngjarnt kaupverð þegar glugginn opnar í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×