Enski boltinn

Stjörnu­lög­­fræðingur á að bjarga Paqueta frá lífs­­tíðar­banni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Lucas Paqueta er sakaður um að ná sér viljandi í gul spjöld, til að hægt væri að græða á veðmálum um slíkt.
Lucas Paqueta er sakaður um að ná sér viljandi í gul spjöld, til að hægt væri að græða á veðmálum um slíkt. Getty/Rob Newell

Enska knattspyrnusambandið rannsakar nú mögulega aðild brasilíumannsins Lucas Paqueta að víðtæku veðmálasvindli. Hann gæti átt yfir höfði sér lífstíðarbann en félag hans West Ham ætlar að gera sitt til að koma í veg fyrir að svo verði.

Lucas Paqueta er sakaður um að hafa náð sér viljandi í gul spjöld í leikjum West Ham frá nóvember 2022 og þar til í ágúst 2023. Sambandið hefur til skoðanir grunsamleg veðmál í tengslum við áminningar Paqueta en málið snýst um fjóra leiki gegn Leicester, Aston Villa, Leeds og Bournemouth.

Þar að auki var Paqueta ákærður fyrir að neita að vinna með eftirlitsnefnd enska sambandsins en hann henti meðal annars gömlum síma sem var hluti af rannsóknargögnum.

Paqueta er með lögfræðifyrirtækið Legal Law á sínum snærum en nú hefur West Ham bætt stjörnulögfræðingnum Nick De Marco í hóp þeirra sem eiga að koma í veg fyrir að Paqueta verði fundinn sekur.

De Marco er ekki óvanur því að berjast gegn enska knattspyrnusambandinu. Í sumar var hann lögfræðingur Leicester sem vann mál gegn sambandinu eftir að hafa verið sakað um að brjóta fjárhagsreglur sambandsins. Brotin voru þau sömu og urðu til þess að stig voru dæmd af bæði Everton og Nottingham Forest á síðustu leiktíð en De Marco fann glufu og bjargaði Leicester frá sömu örlögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×