
Leikur Stjörnunnar og Gróttu var jafn og spennandi en heimamenn náðu upp þriggja marka forskoti, 28-25, þegar um þrjár mínútur voru til leiksloka. Grótta náði að minnka muninn í eitt mark á ný en Stjarnan hélt út og sigldi sigrinum heim og situr nú í 6. - 7. sæti með sex stig.

Markahæstur Stjörnumanna var Ísak Logi Einarsson með níu mörk og Tandri Már Konráðsson kom næstur með átta. Hjá Gróttu var það Sæþór Atlason sem var markahæstur með sex mörk.

Í Kórnum tóku heimamenn á móti Aftureldingu þar sem gestirnir stungu af í lokin. Staðan var 18-19 eftir rúmar 40 mínútur en lokatölur urðu 24-32. Birgir Steinn Jónsson var markahæstur gestanna með átta mörk en Sigurður Jefferson Guarino og Júlíus Flosason skoruðu fimm mörk hvor fyrir HK.