Fótbolti

Dómararnir á­kveða eftir há­degi hvort Tyrkjaleiknum verði frestað

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikurinn gegn Tyrklandi verður sá síðasti á Laugardalsvelli áður en blandað gras verður lagt á völlinn. Ekki liggur þó fyrir hvort leikurinn fer fram í kvöld eða á morgun.
Leikurinn gegn Tyrklandi verður sá síðasti á Laugardalsvelli áður en blandað gras verður lagt á völlinn. Ekki liggur þó fyrir hvort leikurinn fer fram í kvöld eða á morgun. vísir/anton

Klukkan 14:00 munu dómarar leiks Íslands og Tyrklands í Þjóðadeildinni meta ástand Laugardalsvallar og hvort hann sé leikhæfur. Í kjölfarið ákveða þeir hvort leikurinn fari fram í kvöld eða verði frestað til morguns.

Í gær var greint frá óvissu um hvort leikur Íslands og Tyrklands gæti farið fram í kvöld eins og til stóð vegna frosts í jörðu. Laugardalsvöllur er ekki upphitaður og er því afar viðkvæmur fyrir næturfrosti eins og var í nótt.

Lið Íslands og Tyrklands æfðu inni í knatthúsi Stjörnunnar, Miðgarði í gær, og síðdegis funduðu eftirlitsmaður UEFA, stjórnendur KSÍ og starfsmenn Laugardalsvallar um hvort leikurinn gæti farið fram í kvöld. Engin ákvörðun var þó tekin íum frestun.

Samkvæmt heimildum íþróttadeildar munu dómarar leiksins skoða Laugardalsvöll klukkan 14:00 og í kjölfarið ákveða hvort hann sé leikhæfur. Ef ekki verður leiknum frestað til morguns. Svigrúm er til þess en landsleikjaglugginn verður opinn fram á þriðjudagskvöld.

Dúkur hefur verið yfir Laugardalsvelli síðustu daga til að halda sem mestum hita á grasinu. Dúkurinn var tekinn af skömmu fyrir leikinn gegn Wales á föstudaginn en settur aftur á eftir leik.

Ekki hefur verið æft á Laugardalsvelli undanfarna daga en fyrir leikinn gegn Wales æfði íslenska liðið á blönduðu grasi FH-inga í Kaplakrika. Walesverjar æfðu heima fyrir áður en þeir flugu til Íslands daginn fyrir leik.


Tengdar fréttir

Eiður var ó­viss um Andra: „Hann var lítill og feit­laginn strákur“

Eiður Smári Guðjohnsen segir að sonur sinn, Andri Lucas, sé hreinræktaður framherji sem eigi bjarta framtíð fyrir höndum og sé föðurbetrungur á ákveðnum sviðum. Hann hafi þó ekki verið alveg viss í byrjun um að það yrði atvinnumaður í fótbolta úr honum.

KSÍ vildi fá Albert sem bað um hvíld

Åge Hareide sagði á blaðamannafundi fyrir landsleik Íslands og Tyrklands á morgun að KSÍ hefði rætt við Albert Guðmundsson um að koma til liðs við landsliðshópinn fyrir leikinn annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×