Fox News hefur almennt farið mjúkum höndum um Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta og forsetaefni Repúblikana, og verið afar gagnrýnið á Demókrataflokkinn. Þannig má Harris gera ráð fyrir erfiðum spurningum en á sama tíma er um að ræða tækifæri til að ná til stærri hóps kjósenda.
Samkvæmt umfjöllun erlendra miðla má gera ráð fyrir að viðtalið verði um 30 mínútur að lengd.
Varaforsetaefni Harris, Tim Walz, hefur þegar verið gestur Fox, tvær síðustu helgar, og þá hafa þáttastjórnendur Fox einnig fengið til sín aðra Demókrata, til að mynda ríkisstjórana Gavin Newsom og Josh Shapiro.
Trump, sem hefur neitað að mæta Harris í öðrum kappræðum, mun einnig bregða fyrir á Fox á morgun, þar sem hann mun svara spurningum frá áhorfendum úr sal, sem allir verða konur.