Sport

Ólympíufari eftir­lýstur af FBI fyrir morð og eitur­lyfja­smygl

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ryan Wedding keppti á Vetrarólympíuleikunum 2002. Í dag er hann eftirlýstur af FBI.
Ryan Wedding keppti á Vetrarólympíuleikunum 2002. Í dag er hann eftirlýstur af FBI. vísir/getty

Ryan Wedding, sem keppti á Vetrarólympíuleikunum í Salt Lake City 2002 fyrir hönd Kanada, er eftirlýstur af FBI fyrir morð og eiturlyfjasmygl.

FBI lýsti eftir Wedding á þriðjudaginn og bauð fimmtíu þúsund dollara (6,9 milljónir íslenskra króna) fyrir upplýsingar sem gætu leitt til handtöku hans.

Samkvæmt upplýsingum frá FBI var Wedding einn af aðalmönnunum í alþjóðlegum eiturlyfjahring sem smyglaði miklu magni af kókaíni frá Kólumbíu til Kanada og Bandaríkjanna og myrti fjóra einstaklinga.

Hinn 43 ára Wedding er einn af sextán manns sem eru kærðir í tengslum við eiturlyfjahringinn sem smyglaði sextíu tonnum af kókaíni á ári. Auk Weddings ganga þrír aðrir af þessum sextán enn lausir.

Wedding var handtekinn 2010 og dæmdur í fangelsi fyrir kókaínsmygl. Eftir að hann losnaði úr prísundinni tók hann upp þráðinn þar sem frá var horfið.

Wedding lenti í 24. sæti í snjóbrettasvigi á Vetrarólympíuleikunum í Salt Lake City fyrir 22 árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×