Hún var sögð hafa grátið sig inn á þing í alþingiskosningunum 2017 þegar flokkurinn fékk fjóra þingmenn. Ingu og þá nýstofnuðum flokki hennar tókst hins vegar ekki að koma inn manni í fyrstu atrennu í kosningunum árið á undan.
Ekki alltaf allir ánægðir með hrókeringar
Í Samtalinu segir hún engar væringar í flokknum þótt öllum hafi ekki líkað að Tómasi A. Tómassyni og Jakobi Frímanni Magnússyni hafi verið skipt út fyrir aðra í forystusætum í tveimur kjördæmum. Jakob hefur síðan sagt sig úr flokknum.
„Þegar þú segir að gusti um framboðið,“ sagði Inga sem brosti og hristi höfuðið; „þá er frekar mikið sólskin og logn í kringum okkur. Það er nú kannski þannig í pólitík að það er verið að hrókera og stilla upp þeim oddvitum sem teljast farsælastir fyrir framboðið.“
Ekki hafa þó allir verið sáttir innan flokkins og í dag sagði Georg Eiður Arnarson varaþingmaður Flokks fólksins í Suðurkjördæmi sig úr honum vegna óánægju með Ásthildi Lóu Þórsdóttur þingmann flokksins í kjördæminu.
Inga sagði að svona væri þetta í pólitíkinni, ekki væru alltaf allir ánægðir með hrókeringar. En samstarfið við Jakob hafi verið yndislegt.
„Við syngjum saman, hann var með kórinn okkar og þetta var yndislegt. Ég hef aldrei orðið vör við neitt.“
En með Tómas, er honum skipt út fyrir að sofa of mikið í þingsal?
Ómaklegt að klína syfju á Tómas
„Nei, alls ekki og það hefur verið ómaklegt að ræða það þegar hann dottaði nýkominn á þing. Hann er forkur til vinnu, mættur fyrstur og fer síðastur heim. Að eitthvað svona klínist á mann sem gerðist í fyrndinni! Það virðist sem það eigi að fylgja manni út yfir gröf og dauða. Ég hef verið hissa á því hvað þetta hefur gengið lengi.“

Það geti hins vegar mörgum reynst erfitt að sitja undir löngum ræðuhöldum.
„Maður verður stundum að spretta fram og fá sér kaffi til að rífa upp augnlokin. Sérstaklega þegar maður þarf að sitja undir þingmönnum sem hafa mjúkar og dáleiðandi raddir, segir Inga Sæland meðal annars í Samtalinu.
Samtalið er í opinni dagskrá á Stöð 2 strax að loknu Íslandi í dag klukkan 19:10 í kvöld. Þátturinn fer fljótlega eftir það á Vísi.