Samkvæmt heimildum fréttastofunnar er útboðsferli Ísavia ohf. vegna reksturs Fríhafnarinnar á Keflavíkurfluvelli á lokametrunum og miðað við að niðurstaða fáist fyrir áramót. Fjögur erlend fyrirtæki eru um hituna og ef tilboð einhvers þeirra stenst allar væntingar stjórnar Ísavia mun það fyrirtæki taka yfir rekstur Fríhafnarinnar.
Ísavia ohf. er alfarið í eigu ríkisins og dótturfélagið Fríhöfnin ehf. á Keflavíkurflugvelli hefur verið rekin af ríkinu frá upphafi. Sex dögum áður en Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra sleit stjórnarsamstarfinu á fréttamannafundi sunnudaginn 13. október, sagði Svandís Svavarsdóttir þáverandi innviðaráðherra að málið hefði ekkert verið rætt í ríkisstjórn.

„Þetta er náttúrlega stórpólitískt mál sem eðli máls samkvæmt þarf að ræða á pólitískum vettvangi. Þannig að ég hyggst taka það upp við félaga mína í ríkisstjórn. Því það þarf að vera pólitískt umboð til að taka pólitískar ákvarðanir,“ sagði Svandís að loknum ríkisstjórnarfundi hinn 8. október. Hún væri alfarið á móti því að bjóða reksturinn út.

Væntanlega hefur ekki orðið mikið úr viðræðum Svandísar við ríkisstjórnarborðið áður en Vinstri græn yfirgáfu ríkisstjórnina. Fjármálaráðherra fer með hlutabréf ríkisins í Ísavia en starfsemi félagsins heyrir hins vegar undir innviðaráðherra. Frá stjórnarslitum gegnir Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins báðum embættunum og því hægt um heimatökin. Hann segir stjórn Ísavia fara með yfirumsjón málsins.

„Þetta mál hefur verið eins og ég þekki það undirbúið nokkuð vel. Ég treysti því að þar sé verið að taka skynsamlegar ákvarðanir. Mín sjónarmið hafa til að mynda verið þau að mikilvægt sé að íslenskir hagsmunir séu þar tryggðir. Við séum ekki bara að sjá enn eina alþjóðlegu flughöfnina. Það sé augljóst þegar þú lendir í Keflavík að þú sért að lenda á Íslandi,“ sagði Sigurður Ingi hinn 8. október.
Sama dag ítrekaði forsætisráðherra að málið væri alfarið í höndum stjórnar Ísavia ohf. Stjórn félagsins væri að kanna hvort borgaði sig betur að halda rekstrinum áfram eða fá samstarfsaðila til liðs við sig sem greiddi þá fyrir það til ríkisins í gegnum Ísavia.

„Fyrir réttinn til að fá að reka þessa verslun. Til að selja þessar karmellur, ilmvörn og annan varning sem þarna er seldur. Og ef stjórnin kemst að þeirri niðurstöðu að það sé miklu meira upp úr því að hafa fyrir hagsmuni ríkisins að láta menn keppa um að fá að borga fyrir þennan rétt, þá líst mér vel á það,“ sagði Bjarni Benediktsson að loknum ríkisstjórnarfundi hinn 8. október.