Bjarni Jónsson fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna hefur þá tilkynnt framboð fyrir nýstofnaðan flokk Græningja.
Athygli vakti í gær að Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og forseti Alþingis ætlar ekki að gefa kost á sér að nýju, en hann hefur setið á þingi í yfir tuttugu ár.
„Þetta var út af fyrir sig erfið ákvörðun en þetta hefur svo sem verið að gerjast í mér lengi. Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar að það sé aldrei sjálfgefið að maður fari í framboð til Alþingis en hef engu að síður gert það sjö sinnum. Ég hef alltaf þurft að hugsa um um í hvert skipti,“ sagði Birgir í hádegisfréttum Bylgjunnar.
„Núna náttúrulega ber þetta að með dálítið óvæntum og óvenjulegum hætti og fyrstu viðbrögð hjá mér voru einhvern veginn þau að taka bara slaginn áfram. En svo hins vegar liðu einhverjir dagar og þá fór maður að velta fyrir sér, út frá manns eigin forsendum, hvort að hugsanlega væri þetta komið gott eftir 21 ár á Alþingi og núna síðustu þrjú árin sem forseti Alþingis,“ sagði Birgir.
„Að hugsanlega væru þarna einhver tímamót sem maður þyrfti aðeins að staldra við.
Hann segir að ekki hafi verið þrýst á hann um að halda áfram og að þau samskipti sem hann hafi átt við kjörnefndina hafi verið afskaplega góð.