Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá hve krefjandi aðstæður voru á flugvellinum. Þar var suðvestan strekkingur með rigningarsudda þegar fyrsta þotan birtist úr skýjunum yfir Tjörninni klukkan korter yfir fjögur og greinilegt að talsverð ókyrrð var í lofti þegar flugmennirnir lentu vélinni.
Þar var komin þota sænska forsætisráðherrans, Ulfs Kristersson, nítján sæta af gerðinni Grumman Gulfstream, merkt sænska flughernum.

Um líkt leyti og verið var að leggja henni við Loftleiðahótelið birtist næsta þota með norska forsætisráðherrannn um borð, Jonas Gahr Støre. Þotan sem hann kom á er af gerðinni Dassault Falcon og með sæti fyrir allt að tíu farþega. Henni var sömuleiðis ekið að Loftleiðahótelinu og lagt við hlið þeirrar sænsku.
Í sömu mund birtist svo þriðja þotan úr skýjaþykkninu með danska forsætisráðherrann um borð, Mette Frederiksen. Einnig hún mátti þola talsverðan hristing þegar vængirnir sveifluðust til í lendingunni. Þota hennar, merkt danska flughernum, er af gerðinni Bombardier Challenger og með pláss fyrir allt að nítján farþega.
Svo þétt komu þoturnar að beðið var með að hleypa farþegunum úr þeim fyrri út þar til búið var að leggja þeim öllum á flugstæðinu og drepa á hreyflunum. Þá loks þótti óhætt að opna dyrnar. Bílalestunum var síðan ekið upp að þotunum, hverri að sinni.

Sérstakar móttökunefndir tóku á móti ráðherrunum og fylgdarliði þeirra. Meðan gestirnir komu sér fyrir í bílunum mátti sjá enn eina lögreglufylgdina á Hringbrautinni, væntanlega með finnska forsætisráðherrann, sem sameinaðist fljótlega hinum þremur.
Aðeins þrír af forsætisráðherrunum flugu með glæsiþotum til Reykjavíkur. Finnski forsætisráðherrann kom með almennu farþegaflugi til Keflavíkur í morgun.
Hér má sjá lendingarnar: