„Þetta er ógeðslega langt,“ segir Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, hreinskilinn varðandi ferðalagið sem bíður Hauka en þeir drógust gegn liðinu Kur frá Aserbaísjan.
Frá Hafnarfirði til borgarinnar Mingachevir, þar sem Kur er staðsett, eru rúmir 5.000 kílómetrar í beinni fluglínu. Ljóst er að ferðalag Hauka gæti orðið mun lengra - flókið og tímafrekt.
„Þetta er rándýrt og erfitt,“ segir Ásgeir sem stýrði Haukum til afar öruggs sigurs gegn finnska liðinu Cocks í tveggja leikja einvígi í 2. umferð.

Sá möguleiki er fyrir hendi að forráðamenn Hauka og Kur semji um að báðir leikirnir fari fram í sama landi, annað hvort á Íslandi eða í Aserbaísjan, til að draga úr ferðakostnaði. Ásgeir segir að það verði skoðað.
„Við verðum að sjá til. Þetta er alveg nýskeð,“ segir Ásgeir. Áætlað er að leikirnir fari fram helgina 23.-24. nóvember og 30. nóvember til 1. desember. Sigurliðið kemst í 16-liða úrslit sem fram fara í febrúar á næsta ári og Ásgeir segir klárt mál að Haukar ætli að vera með þar:
„Það skiptir ekki máli hvað við hefðum fengið í þessum drætti í dag. Við ætlum bara að vinna og fara áfram í næstu umferð.“