Þetta er fjórða dýrasta NBA-treyja allra tíma. Sú dýrasta er Jordan-treyja frá síðasta tímabili hans með Bulls, næstdýrasta er treyja Kobes Bryant frá 2007-08, þegar hann var valinn mikilvægasti leikmaður tímabils, og sú þriðja er treyja Wilts Chamberlain frá 1971-72.
Jordan-treyjan sem seldist á dögunum hafði verið í einkaeigu frá því hún var seld frá Bulls. Jordan notaði hana sautján sinnum tímabilið 1996-97.
Bulls varð NBA-meistari í fimmta sinn tímabilið 1996-97. Jordan var valinn verðmætasti leikmaður tímabilsins. Hann var þá með 29,6 stig, 5,9 fráköst og 4,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Alls seldust minjagripir tengdir Jordan fyrir átta og hálfa milljón dollara á uppboðinu. Það samsvarar 1,1 milljarði íslenskra króna.