„Við byrjum alveg ótrúlega vel og komumst yfir. Við vorum að sækja á þá og komumst í færi. Svo einhvern veginn hleypum við þeim aftur inn í þennan leik. Það er bara alveg óþolandi og svekkjandi að tapa þessum leik 4-1,“ segir Andri Lucas sem skoraði fyrsta mark Íslands snemma leiks en Ísland fékk í kjölfarið fjögur mörk á sig og fullstórt tap niðurstaðan.
Orri Steinn Óskarsson fór meiddur af velli um miðjan fyrri hálfleik. Andri Lucas segir hafa munað töluvert um að missa félaga hans úr framlínunni.
„Leikplanið breytist alveg þvílíkt þegar Orri meiðist. Þá þurfum við að fara í allt öðruvísi leikplan sem við vorum ekki alveg tilbúnir í. Þó það hafi gerst vorum við að komast í færi, þeir sömuleiðis líka, en við bara náum ekki að komast í þessi færi sem við komumst inn,“ segir Andri Lucas og bætir við:
„Mér finnst persónulega mjög þægilegt að hafa Orra þarna við hliðina á mér, þegar við erum að sækja saman á andstæðinginn. Það var pínu högg. En auðvitað eru aðrir leikmenn sem koma inn og þurfa að standa sig. En það einhvern veginn var ekki okkar leikur í dag.“
Viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.