Antony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, greindi frá andláti nítján ára gamallar ástralskrar stúlku í Laos í dag. Bianca Jones veiktist í bænum Vang Vieng í Laos ásamt hópi annarra eftir að hún innbyrti tréspíra. Hún lést á sjúkrahúsi í Taílandi í dag.
Talsmaður taílensku lögreglunnar segir að Jones hafi drukkið eftirlíkingu af áfengi. Hár styrkur metanóls í líkama hennar hafi leitt til bólgu í heila. Albanese sagði að jafnaldra Jones lægi einnig þungt haldin á sjúkrahúsi.
Tvær danskar konur og einn Bandaríkjamaður höfðu áður látist af völdum tréspíraeitrunar. Fleiri eru veikir. Fólkið á það sameiginlegt að hafa dvalið í Vang Vieng sem er vinsælla áfangastaður bakpokaferðalanga.
Vafasamt áfengi er þekkt vandamál í Laos og bresk og áströlsk stjórnvöld vara þegna sín við því að fá sér í glas þar, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Tréspíra er stundum bætt út í blandaða drykki þar sem hann er ódýrari en vínandi þrátt fyrir að hann geti valdið dauða eða alvarlegum veikindum.
Tréspíri, eða metanól, er meðal annars notaður sem leysiefni í iðnaði, skordýraeitur og eldsneyti. Níu manns létust eftir að hafa drukkið tréspíra á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum á fimmta áratug síðustu aldar.