Arnór Gauti er varnarmaður og kemur til Grindavíkur frá ÍR. Hann lék 20 leiki með ÍR í Lengjudeildinni á liðnu sumri en hann er uppalinn í FH og hefur einnig leikið með Þrótti Vogum.
Grindvíkingar, sem enduðu í 9. sæti Lengjudeildarinnar í sumar, hafa þegar misst frá sér nokkra lykilleikmenn og þurfa lífsnauðsynlega að bæta í hópinn, en liðið var með fjölmarga erlenda leikmenn á launaskrá síðastliðið sumar.
Meðal þeirra sem hafa yfirgefið liðið er markvörðurinn Aron Dagur Birnuson sem gekk til liðs við Stjörnuna og þá fóru þeir Sigurjón Rúnarsson og Kristófer Konráðsson báðir í Fram.