The Sun greinir frá því Coote gefið leikmanni Leeds United, Ezgjan Alioski, gult spjald eins og hann talaði um fyrir leik gegn West Brom í október 2019. Eftir leikinn sendi Coote vini sínum skilaboð þar sem hann sagðist vona að hann hefði veðjað á það sem þeir ræddu um.
PGMOL setti Coote í bann fyrr í þessum mánuði eftir að myndband þar sem hann sagði Jürgen Klopp, þáverandi knattspyrnustjóra Liverpool, til syndanna fór í dreifingu.
Í kjölfarið fór annað myndband í dreifingu þar sem hann sést sjúga hvítt duft upp í nefið á meðan EM í sumar stóð. Þá var greint frá því að Coote hefði skipulagt dóppartí á meðan leik Manchester City og Tottenham í deildabikarnum stóð en hann var fjórði dómari þar.
Coote hefur viðurkennt að samtalið við vin hans um gula spjaldið í leik Leeds og West Brom hafi farið fram en um grín hafi verið að ræða. Ekkert bendir til þess að Coote hafi hagnast fjárhagslega á þessu atviki og hann neitar alfarið sök í málinu.
Coote kynntist manninum sem hann sendi skilaboðin til á netinu. Hann gortaði sig af því að hann væri að fara að dæma leik Leeds og West Brom í B-deildinni. Vinurinn sagði Coote að gefa Alioski gula spjaldið svo hann gæti veðjað á það fyrir leikinn. Coote sagðist ekkert vita hvað hann væri að tala um en gaf Alioski gula spjaldið á 18. mínútu leiksins.
Daginn eftir leikinn sendi Coote eftirfarandi skilaboð á vininn: „Ég vona að þú hafir veðjað á það sem við töluðum um.“ Vinurinn sagðist ekki hafa gert það en sagði að félagi sinn hefði líklega gert það. Coote svaraði: „Haha, hann þarf að deila því með þér.“
Sem fyrr sagði hagnaðist Coote ekki á atvikinu og PGMOL hafnar því að hann hafi spjaldað leikmanninn viljandi. Skilaboðin líta hins vegar ekki vel út fyrir hann, sérstaklega ekki eftir atburði síðustu vikna.