Sigmundur Davíð og Bjarni ræddu við Heimi ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur formanni Viðreisnar.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins tekur undir það. Það sé eðlilegt að Kristrún fái fyrst umboðið en það sé eðlilegt að forsetinn viti það fyrir fram ef það sé hægt að mynda ríkisstjórn strax.
„Ég er ekki að biðja um að fá umboðið þó ég gæti örugglega farið vel með það og gert eitt og annað. Það eiginlega blasir við að Kristrún fái stjórnarmyndunarumboð, bæði sem formaður stærsta flokksins og formaður þess flokks sem bætti mestu við sig,“ segir Sigmundur en bendir þó á að Miðflokkurinn hafi bætt hlutfallslega mestu við sig.
Gæti myndað ríkisstjórn á níu dögum
Fengi hann sjálfur umboðið segist hann geta myndað ríkisstjórn á sjö til níu dögum.
Bjarni segir það séríslenskt að flokkar skuldbindi sig ekki í blokkir fyrir kosningar en það tíðkist ekki hér. Þó svo að flokkunum fækki þá sé enn verið að reyna að máta saman flokka. Sem dæmi sé hann með tillögur að átta ríkisstjórnum á blaði og í sjö þeirra sé „flokkurinn sem galt afhroð", sem sé flokkur hans.
Sigmundur vill ekki spá fyrir um hverjir verði í ríkisstjórn en segist vona að hún verði borgaraleg. Bjarni segir mikilvægt að mynda borgaralega ríkisstjórn. Hvort hann myndi vilja með Samfylkingu þá sjái hann dæmið ekki endilega ganga upp. Bjarni segist ekki ætla í aðra ríkisstjórn þar sem flokkar sigla í öfuga átt.
Þorgerður Katrín segist vilja frjálslynda miðjustjórn.
Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér að neðan.