Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu í morgun þar sem segir að Árni hafi andast á Landspítalanum í Fossvogi síðastliðinn miðvikudag.
Árni fæddist í Reykjavík 3. júní 1950, sonur Indriða Sigurðssonar stýrimanns og Erlu Árnadóttur bókavarðar. Hann ólst upp á Seltjarnarnesi, varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1970 og lauk cand. mag. Prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1977.
Eftir útskrift úr háskóla byrjaði Árni að kenna sögu við Menntaskólann í Reykjavík þar sem hann kenndi sérstaklega sögu Forngrikkja og Rómaveldis. Hann starfaði við MR allan sinn starfsferil og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum.
Árni lagði kapp á handbolta á sínum yngri árum og spilaði meðal annars með liði Víkinga undir stjórn Bogdan Kowalczyk, sem var fyrir nokkru útnefnt besta handboltalið Íslandssögunnar. Síðar átti hann eftir að þjálfa handbolta samhliða kennslu. Á ferli sínum lék hann sextíu með handboltalandsliðinu og var um tíma fyrirliði liðsins.
Eftirlifandi eiginkona Árna er Kristín Klara Einarsdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri. Hann lætur eftir sig fjögur börn – Hjalta, Einar Baldvin, Erlu Kristínu og Hildi – og átta barnabörn.
Útförin fer fram frá Neskirkju 16. desember.