Jón Dagur var í byrjunarliði Herthu Berlin en var tekinn af velli í hálfleik. Þá var staðan 1-1.
Heimamenn komust yfir strax á 5. mínútu með marki Ibrahims Maza en Noel Futkeu jafnaði sjö mínútum fyrir hálfleik. Hann tryggði Greuther Fürth svo sigurinn þegar hann skoraði annað mark sitt á 55. mínútu.
Hertha Berlin hefur tapað þremur af síðustu fimm leikjum sínum og er í 10. sæti deildarinnar með 21 stig eftir fimmtán leiki.
Jón Dagur gekk í raðir Herthu Berlin frá Leuven í Belgíu fyrir tímabilið. Hann hefur leikið ellefu deildarleiki fyrir Berlínarliðið í vetur en ekki enn tekist að skora.