„Þetta var klárlega liðssigur og varnarsigur. Mjög sterkt að vinna Tindastól tvisvar á einni helgi,“ sagði Halldór Garðar Hermannsson, fyrirliði Keflavíkur, eftir sigurinn í kvöld.
Þetta var annar sigur Keflavíkur gegn Tindastól um helgina en Keflavík kjöldró Tindastól á föstudaginn.
„Þetta var alveg skrítið að undirbúa sig aftur fyrir sama lið en það er bara geggjað og Tindastóll er náttúrulega bara frábært lið. Það er frábært að halda þeim í 70 stigum og við gerðum bara mjög vel og fráköstuðum mjög vel sem var fannst mér lykillinn af þessu,“ sagði Halldór.
Halldór Garðar talaði um að fráköstin hefðu verið lykillinn af sigrinum í kvöld ásamt góðum varnarleik.
„Það eru fráköstin klárlega. Við höldum þeim í 25 stigum í seinni hálfleik og þar af átta í fjórða leikhluta þannig varnarleikurinn eitt, tvö og þrjú. Það var bara þannig í dag,“ sagði Halldór.
Keflavík voru ekki jafn skotglaðir í þessum leik eins og við sáum í fyrri leik liðana um helgina.
„Það er kannski ekki eðlilegt að skjóta 60% í þriggja þó við eigum það alveg til. Ég veit það ekki, kannski bara tveir leikir á stuttum tíma og fæturnir aðeins þyngri. Menn voru að leggja meiri baráttu í vörnina.“
Flestir spekingar landsins hafa talað upp Tindastól og Stjörnuna sem bestu lið landsins um þessar mundir en það má þó alls ekki afskrifa Keflavík.
„Þetta er bara mjög fljótt að breytast og það eru mörg lið að gera sig líklega. Við erum klárlega í mixinu þannig við höldum bara áfram,“ sagði Halldór.
Aðspurður um hvort að Keflavík ætti einhvern óska mótherja vill Halldór Garðar bara sjá sitt lið fá heimaleik.
„Ég vill bara fá heimaleik. Við fengum engan heimaleik í fyrra og við erum komnir með einn núna þannig ég væri til í annan heimaleik,“ sagði Halldór að lokum.