Fimm þeirra sem veiktust eru erlendir ferðamenn: fjórir Ástralir og einn Bandaríkjamaður, en tveir eru erlendir ríkisborgarar sem eru búsettir á Fídji, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Fólkið er á aldrinum átján til 56 ára gamalt og veiktist skömmu eftir að það drakk piña colada, áfengt hanastél þar sem uppistaðan er romm, á bar Warwich Fiji-hótelinu á Kóralaströndinni á Fídji. Fólkið var flutt á sjúkrahús en það þjáðist meðal annars af uppköstum, ógleði og taugakerfiseinkennum.
Ferðaþjónusta er grunnstoð efnahags Fídji. Yfirmaður ferðamála þar segir að uppákoman á hótelinu þar eigi fátt skilt við andlát erlendra ferðamanna sem drukku áfengi sem var mengað tréspíra á bar gistiheimilis í Laos í síðasta mánuði. Sex ferðamenn létust þar, þar á meðal tvær ungar danskar stúlkur.
Viliame Gavok, ferðamálaráðherra Fídji, fullyrti að um einangrað atvik væri að ræða og að hótelið harðneitaði því að hafa beitt þeim bellibrögðum að drýgja drykki með ódýru áfengi.
Þrátt fyrir það ráðleggja áströlsk stjórnvöld þarlendum ferðalöngum að vera á varðbergi fyrir mögulega menguðum áfengum drykkjum á Fídji. Tvær ástralskar stúlkur voru á meðal þeirra sem létust í Laos.