Smirnov mun seinna í dag játa að hafa logið og einnig gangast við skattsvikum, samkvæmt dómskjölum sem blaðamenn AP fréttaveitunnar hafa komið höndum yfir. Er það liður í samkomulagi milli verjanda hans og saksóknara um að hann verði dæmdur til fjögurra til sex ára fangelsisvistar.
Smirnov var uppljóstrari FBI um árabil en hann er sakaður um að hafa í júní 2020 logið því að yfirmenn í úkraínska orkufyrirtækinu Burisma hafi sagt honum að þeir hefðu greitt bæði Joe og Hunter Biden fimm milljónir dala á árunum 2015 og 2016. Hunter sat um tíma í stjórn félagsins.
Smirnov hélt því fram að yfirmaður hefði sagt sér að þeir hefðu ráðið Hunter svo hann gæti varið þá með aðstoð föður síns.
Hann sagði einnig að rússneskar leyniþjónustur hefðu yfir höndum myndband af Hunter á hóteli í Kænugarði, en þangað hefur Hunter aldrei farið.

Seinna meir viðurkenndi Smirnov að hann hefði átt í samskiptum við rússneska útsendara viðloðna leyniþjónustur Rússlands. Þeir hefðu komið að því að dreifa lygum um Hunter Biden.
Sjá einnig: Lyginn uppljóstrari í samskiptum við rússneska embættismenn
Repúblikanar í fulltrúadeildinni vörðu miklum tíma í þremur nefndum í að rannsaka Joe Biden og Hunter son hans. Þeir hafa ítrekað haldið því fram að Joe Biden hafi hagnast á viðskiptum Hunters á erlendri grundu og tekið við mútum gegnum fjölskyldumeðlimi sína en hafa ekki getað fært neinar sannanir fyrir því og hafa gert tilraunir til óheiðarlegrar framsetningar á meintum vísbendingum þeirra.
Hunter hafði verið sakfelldur fyrir skattsvik og fyrir að ljúga á eyðublaði vegna byssukaupa og var stutt í dómsuppkvaðningu þegar Joe Biden náðaði hann með umfangsmiklum og fordæmalausum hætti.
Umrædd náðun spannar ellefu ára tímabil og náðar Hunter Biden af öllum mögulegum alríkis glæpum á því tímabili, ekki eingöngu af skattsvikum og skotvopnalagabrotum sem hann hefur verið dæmdur fyrir.
Tímabil þetta er frá 1. janúar 2014 til og með 1. desember 2024.
Við rannsóknir þeirra notuðust Repúblikanar við ásakanir Smirnovs og áður en hann var ákærður fyrir lygar reyndu Repúblikanar ítrekað að fá vitnisburð hans birtan opinberlega. Það var þrátt fyrir að forsvarsmenn FBI vöruðu þá við því að Smirnov gæti verið að ljúga.
Sjá einnig: Uppljóstrari FBI ákærður fyrir lygar um Hunter og Joe Biden
Repúblikanar lýstu honum þó sem „trúverðugu“ vitni og reyndu að þvinga FBI til að birta ummæli hans opinberlega.